Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur vísað máli vegna mögulegs upplýsingaleka frá Seðlabanka Íslands til RÚV til lögreglu þar sem grunur sé um að lekinn kunni að fela í sér refsiverða háttsemi. Frá þessu var fyrst greint í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi. Bréf þess efnis var sent til embættis lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu 11. september 2019.
Um er að ræða upplýsingar um húsleit sem fór fram hjá Samherja i mars 2012 en samkvæmt frétt mbl.is um málið sýndi rannsókn innri endurskoðanda Seðlabankans að þáverandi framkvæmdastjóri gjaldeyriseftirlits Seðlabankans, Ingibjörg Guðbjartsdóttir, hafi átt í tölvupóstsamskiptum við starfsmann RÚV í rúman mánuð áður en ráðist var í þá húsleit, samkvæmt bréfi sem Seðlabanki Íslands sendi þann 18. ágúst 2019 til forsætisráðherra. I fréttinni segir að í tölvupóstsamskiptunum hafi engar trúnaðarupplýsingar verið en fréttamaður RÚV hafi virst vita af fyrirhugaðri húsleit.
Í frétt mbl.is er einnig rætt við Þorstein Má Baldvinsson, forstjóra og einn aðaleiganda Samherja, sem segri þar að um mjög ruddalega framkvæmd hafi verið að ræða sem auk þess hafi verið sýnd í beinni útsendingu. „Þetta gekk út á það að hluta til að valda tjóni og meiða fólk og þetta hitti mjög marga starfsmenn Samherja illa. Það var verið að ráðast á fyrirtæki og starfsfólk þess. Það er ekki annað hægt en að kalla þetta árás og RÚV var gerandi með Seðlabankanum í þessu máli. Það er í raun það sem er verið að staðfesta.“
Már hefur hafnað því alfarið að RÚV hafi fengið gögn
Þann 8. nóvember í fyrra kvað Hæstiréttur Íslands upp dóm í máli Seðlabanka Íslands gegn Samherja hf. Í dómnum er staðfest niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur um að fella úr gildi ákvörðun Seðlabanka Íslands frá 1. september 2016 um að Samherji hf. skuli greiða 15 milljónir króna í stjórnvaldssekt til ríkissjóðs vegna brota gegn reglum um gjaldeyrismál.
Síðar í þeim mánuði fór Már Guðmundsson, þáverandi seðlabankastjóri, í viðtal í útvarpsþáttinn Sprengisand á Bylgjunni. Þar sagði hann það af og frá að Samherja-málið hefði komið frá RÚV. Rannsóknin hafi verið í fullum gangi þegar Kastljós hafði samband og spurt hvort þetta gæti staðist. „Bankinn varð mjög órólegur yfir því að þetta gæti mögulega spillt fyrir rannsókn málsins. Þau fengu engin gögn frá okkur,“ sagði Már. Hann hafi heldur ekkert vélað um umfangsmikla húsleit sem ráðist var í hjá Samherja á sínum tíma. „Þetta virkar mjög umfangsmikið en þegar menn telja að það sé nauðsynlegt að komast í öll gögn á einum tímapunkti þá verður það ekki gert nema í umfangsmikilli aðgerð.“