Útgerðarfyrirtækið Samherji krefur Seðlabanka Íslands um 322 milljónir króna í bætur vegna aðgerða bankans gegn fyrirtækinu.
Greint var frá þessu í fréttum Stöðvar 2 í kvöld.
Skaðabótamálið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í september, en krafan byggist meðal annars á miklum kostnaði sem málarekstur Seðlabanka Íslands gegn fyrirtækinu hafi haft í för með sér.
Þar af 247 milljónir vegna lögmanna og endurskoðenda, og 59 milljónir vegna óbeins kostnaðar.
Hæstiréttur Íslands komst að þeirri niðurstöðu í nóvember í fyrra að Seðlabankanum hafi ekki verið heimilt að leggja stjórnvaldssekt á Samherja vegna brota á gjaldeyrislögum sem Seðlabankinn sakaði Samherja um.
Eins og greint var frá í morgun, þá hefur Seðlabankinn sent frá sér tilkynningu vegna umfjöllunar fréttamiðla um meintan gagnaleka. „Eins og komið hefur fram í fjölmiðlum hefur rannsókn innri endurskoðanda Seðlabankans leitt í ljós að starfsmaður Seðlabankans og fréttamaður Ríkisútvarpsins áttu í samskiptum áður en húsleit fór fram hjá Samherja hf. og tengdum aðilum.
Nánar tiltekið fólust samskiptin í því að fréttamaðurinn sendi uppkast að frétt með tölvupósti þar sem húsleitarinnar var getið – daginn áður en hún fór fram. Rannsókn bankans sýndi hins vegar að þessum pósti var ekki svarað. Það er því ekkert sem liggur fyrir um að upplýsingum hafi verið lekið frá Seðlabankanum enda ljóst að téð húsleit var á vitorði margra,“ segir í tilkynningunni.
Þá segir að forsætisráðuneytið hafi upplýst lögreglu um niðurstöður rannsóknar Seðlabankans hvað þetta varðar án þess þó að í því hafi falist nokkur efnisleg afstaða eins og fram hafi komið í bréfi ráðuneytisins.