Hagnaður Símans á þriðja ársfjórðungi var rúmlega 897 milljónir króna og dróst saman úr 978 milljónum króna í fyrra. Rekstrarhagnaður félagsins var 2,8 milljarðar króna og hækkaði um 210 milljónir króna frá sama tímabili 2017.
Eiginfjárhlutfall Símans í lok þess ársfjórðungs, sem lauk í lok september, var 55,4 prósent og eigið fé fjarskiptarisans var 36,3 milljarðar króna.
Í tilkynningu til Kauphallar kemur fram að meðalverð á einstaklingsmarkaði fyrir fjarskiptaþjónustu hafi byrjað að þokast upp á síðari hluta þessa árs eftir að hafa lækkað skarpt mörg undanfarin ár. Orri Hauksson, forstjóri Símans, segir þó að enn sjái ekki fyrir endan á verðþrýstingi á fyrirtækjamarkaði. Tekjur Símans af farsíma- og talsímaþjónustu drógust saman á þriðja ársfjórðungi miðað við sama tímabil í fyrra. Raunar er annað hvort samdráttur eða stöðnun í þróun tekna á nánast öllum tekjusviðum samstæðunnar nema einni: í sjónvarpsrekstri.
20 prósent vöxtur í sjónvarpsrekstri
Það var nefnilega góður tekjuvöxtur í sjónvarpsrekstri milli ára, eða um 20 prósent. Á þriðja ársfjórðungi í fyrra voru tekjur Símans af sjónvarsrekstri 1.190 milljónir króna er voru nú 1.423 milljónir króna. „Síminn Sport hefur notið velgengni umfram væntingar frá því varan fór í loftið á miðjum þriðja fjórðungi. Vel hefur til dæmis gengið að semja um dreifingu vörunnar yfir öll fjarskipta- og sjónvarpsdreifikerfi landsins. Nær enska úrvalsdeildin til allra landsmanna og við sjáum áhugann fara vaxandi, með þeirri vönduðu og sérlega hagstæðu þjónustu sem Síminn Sport er. Við höfum því áfram góðar væntingar til vörunnar næstu mánuði.“
Orri segir að Síminn hafi einnig reynt að semja um aldreifingu fyrir Sjónvarp Símans Premium en að það hafi ekki gengið sem skyldi fram að þessu. „Ástæðan er mótstaða Sýnar gegn því að selja aðgang að dreifikerfum í sinni umsjá fyrir Sjónvarp Símans Premium, sem er sú íslenska efnisveita sem langmest er notuð. Síminn verður þannig af möguleikum til aukinnar tekjusköpunar samhliða því að IPTV viðskiptavinir Sýnar hafa ekki möguleika á að kaupa Sjónvarp Símans Premium. Þessi skekkja mun vonandi leiðréttast á næsta ári.“
Fjárfestingar Síma-samstæðunnar hafa verið umtalsverðar að undanförnu og skiptir þar mestu hröð ljósleiðaravæðing Mílu. „Fjárfestingar samstæðunnar í heild munu fara lækkandi á næstu misserum frá því sem nú er. Stafar sú lækkun fyrst og fremst af því hve langt ljósleiðaraverkefnið er komið. Lækkun fjárfestinga nemur í heild nokkur hundruðum milljónum milli ára á næsta ári,“ segir Orri í tilkynningunni.