Torg, útgáfufélag Fréttablaðsins og tengdra miðla, má framkvæma yfirtöku sína á sjónvarpsstöðinni Hringbraut strax þótt að umfjöllun Samkeppniseftirlitsins um hann sé ekki lokið. Eftirlitið hefur veitt slíka heimild á grundvelli undanþágu í samkeppnislögum.
Ástæðan fyrir veitingu heimildarinnar er að Hringbraut þurfi á auknum fjármunum að halda til að styrkja rekstur sinn en er háð því að ekki verði aðhafst nokkuð í rekstri Hringbrautar á undanþágutíma sem ekki verði mögulegt að vinda ofan af verði ekki af samruna félaganna.
Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.
Nýr aðaleigandi
Samruninn á sér stað í kjölfar þess að Helgi Magnússon fjárfestir, sem í sumar keypti helminginn í útgáfufélagi Fréttablaðsins, bætti við sig hinum helmingnum fyrr í mánuðinum. Með þeim kaupum lauk áralöngu eignarhaldi hjónanna Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Ingibjargar Pálmadóttur á íslenskum fjölmiðlum, en þau höfðu verið aðaleigendur 365 miðla og fyrirrennara þeirrar fjölmiðlasamsteypu í um 16 ár.
Auk þess var greint frá því að sjónvarpsstöðin Hringbraut verði sameinuð Fréttablaðinu og í kjölfar þess samruna verði Sigurður Arngrímsson, viðskiptafélagi Helga sem á meginþorra hlutafjár í Hringbraut, hluthafi í sameinuðu félagi ásamt Jóni Þórssyni og Guðmundi Erni Jóhannssyni, stofnanda Hringbrautar.
Í ljósi þess að búið er að veita undanþágu fyrir þeim samruna getur Hringbraut flutt starfsemi sína í höfuðstöðvar Fréttablaðsins á Hafnartorgi. Áhrif samrunans sáust strax í Fréttablaðinu í morgun þar sem stór auglýsing var frá Hringbraut á síðu sex.
Fréttablaðið situr bráðum eitt að efninu sínu
Þegar 365 miðlar, fyrrverandi eigandi Torgs ehf., seldi ljósvakamiðla sína og Vísi.is til félagsins sem nú heitir Sýn var upphaflega gerður samningur um að efni úr Fréttablaðinu myndi birtast áfram á Vísi.is í 44 mánuði. Samkeppniseftirlitið lét aðila málsins hins vegar stytta þann samning vegna þess að það taldi hann vera of langan. Niðurstaðan var að samningurinn myndi gilda frá 1. desember 2017, þegar miðlarnir færðust formlega yfir til Sýnar, og til 1. desember 2019.
Torg ehf. hefur alla tíð síðan verið að byggja upp nýjan fréttavef, Frettabladid.is, og til stendur að vefur Hringbrautar muni sameinast honum. Því hefur sama efnið birst að morgni á tveimur mismunandi vefum í nálægt tvö ár.
Nú styttist verulega í að Frettabladid.is sitji eitt að efninu úr blaðinu á vefnum, en það gerist eftir rúman mánuð.
Ný og gjörbreytt ritstjórnarstefna
Í lok síðustu viku var ný ritstjórnarstefna fjölmiðla í eigu Torgs ehf. birt á vef fjölmiðlanefndar. Í henni felst að halda fram „borgaralegum viðhorfum, víðsýni og frjálslyndi. Frelsi verði gert hátt undir höfði og hag neytenda haldið á lofti. Stjórnvöldum á hverjum tíma verði veitt aðhald á öllum sviðum. Sama gildi um dómstóla. Áhersla verði lögð á mikilvægi umhverfisverndar, eflingu atvinnulífsins og samstarf Íslendinga á alþjóðlegum vettvangi.“
Til viðbótar við þetta verður „kappkostað að fjölmiðlar TORGS verði áfram mikilvægur vettvangur skoðanaskipta og fréttamiðlunar á Íslandi.“
Ritstjórnarstefnan er mjög frábrugðin þeirri stefnu sem áður var við lýði. Í henni sagði meðal annars að Fréttablaðið legði áherslu á „áreiðanlegan og vandaðan fréttaflutning“, að hafa „sjálft ekki skoðun á neinu máli“, að fjalla um „margar hliðar mála og draga fram ólíkar skoðanir og sjónarmið“ og að vera „.opinn og líflegur umræðuvettvangur fyrir lesendur og birta daglega umræðugreinar frá þeim“. Þá var lögð sérstök áhersla á að blaðið væri „hófstillt í framsetningu og útliti“.