Hlutabréf í Iceland Seafood International voru tekin til viðskipta á aðalmarkaði Kauphallar Íslands í morgun. Áður var Iceland Seafood skráð á First North markaðinn. Bjarni Ármannsson, forstjóri og einn aðaleigenda Iceland Seafood, hringdi inn viðskiptin.
Stjórn Iceland Seafood International hf. óskaði eftir því að öll hlutabréf í félaginu verði tekin til viðskipta á Aðalmarkaðinum í byrjun októbermánaðar.
Í tilkynningu frá Kauphöll vegna þessa segir að starfsemi Iceland Seafood megi rekja alveg til ársins 1932. „Félagið er í dag leiðandi þjónustuaðili og söluaðili sjávarfangs úr norður-Atlantshafinu til markaða um allan heim. Félagið vinnur hágæða sjávarfang á Spáni, Bretlandi og Írlandi og er einn stærsti útflutningsaðili fiskafurða frá Íslandi. Helsta söluvara Iceland Seafood eru ýmiskonar fiskafurðir; ferskt sjávarfang og fryst á landi og sjó; saltað, léttsaltað og þurrkað. Auk þess þjónustar félagið viðskiptavini sína með tæknilausnum og birgðastjórnun, sem og tryggir gæði þjónustu og vöru. Höfuðstöðvar Iceland Seafood eru á Íslandi, en félagið hefur 12 skrifstofur í 8 löndum í bæði Evrópu og Norður- og Suður-Ameríku. Starfsmenn eru 620 talsins.“
Magnús Harðarson, nýr forstjóri Kauphallarinnar, segir að Iceland Seafood hafi sýnt svo ekki verði um villst hvernig hægt sé að nýta hlutabréfamarkaðinn til að hrinda í framkvæmd áætlunum sínum. „Félagið hefur verið skráð á First North síðan árið 2016 og frá þeim tíma til dagsins í dag hefur markaðsvirði þess hækkað um 250 prósent. Við óskum Iceland Seafood innilega til hamingju með frábæran árangur, flutning félagsins á Aðalmarkaðinn og hlökkum til að styðja við félagið í vegferð þess til vaxtar og aukins sýnileika.”
Kynjahlutföll forstjóra óbreytt
Bjarni Ármannsson, sem eitt sinn var forstjóri Glitnis, er líkt og áður sagði forstjóri Iceland Seafood. Kynjahlutföll forstjóra skráðra félaga í Kauphöll Íslands, sem hafa verið umtalsvert til umfjöllunar á undanförnum árum, verða því áfram óbreytt. Alls stýra 20 karlar félögunum 20 sem þar eru skráð. Kjarninn greindi frá því í sumar að á lista Frjálsrar verslunar yfir 100 launahæstu forstjóra landsins hafi verið átta konur.
Félag í eigu Bjarna, Sjávarsýn ehf., er líka stærsti eigandi Iceland Seafood eftir nýlegt hlutafjárútboð, með 11,05 prósent eignarhlut. Félagið Nesfiskur ehf. á 10,7 prósent hlut, FISK Seafood, sjávarútvegsarmur Kaupfélags Skagfirðinga á sömuleiðis 10,7 prósent hlut og Jakob Valgeir ehf., í eigu útgerðarmannsins Jakobs Valgeirs Flosasonar, er fjórði stærsti eigandinn með 10,24 prósent hlut.
Félagið Solo Holding ehf. sem var með 8,9 prósent hlut fyrir útboðið, er hins vegar ekki á meðal eigenda lengur. Það félag er í eigu Sjávarsýnar, FISK Seafood, Jakobs Valgeirs, Nesfisks og Útgerðarfélags Reykjavíkur ehf., sem keypti þriðjung í því í nóvember í fyrra. Helsti eigandi Útgerðarfélags Reykjavíkur er Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims, en félagið er langstærsti eigandi Brims með yfir helmingseignarhlut. Nú á Útgerðarfélag Reykjavíkur 1,96 prósent hlut í Iceland Seafood.
Stærstu eigendur Iceland Seafood:
Sjávarsýn ehf | 11,05% | |
Nesfiskur ehf. | 10,70% | |
FISK-Seafood ehf | 10,70% | |
Jakob Valgeir ehf | 10,24% | |
Frjálsi lífeyrissjóðurinn | 4,85% | |
Lífsverk lífeyrissjóður | 4,00% | |
Arion banki hf. | 3,70% | |
Birta lífeyrissjóður | 3,58% | |
Kvika banki hf. | 3,07% | |
Vátryggingafélag Íslands hf. | 2,76% | |
Sjóvá-Almennar tryggingar hf. | 2,57% | |
Útgerðarfélag Reykjavíkur hf. | 1,96% | |
Lífeyrissj.starfsm.rík. A-deild | 1,59% | |
Stefnir - ÍS 15 | 1,55% | |
9. S ehf. | 1,28% | |
Hofgarðar ehf. | 1,17% | |
Íshóll ehf. | 1,17% | |
Akta HL1 | 1,07% | |
Akta HS1 | 1,05% | |
Akta Stokkur | 0,99% | |