Afgerandi meirihluti blaðamanna greiddi atkvæði með vinnustöðvunum í atkvæðagreiðslu Blaðamannafélags Íslands sem fór fram í dag.
Blaðamenn hafa verið samningslausir frá því um áramót, en ekki hefur náðst saman við stærstu fyrirtækin.
Kjarninn og Birtingur hafa þegar samþykkt að ganga að kröfum Blaðamannafélagsins, en það á ekki við um stærstu fyrirtækin, Sýn, Torg útgáfufélag Fréttablaðsins, og Árvakur, og RÚV.
Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands, hefur sagt að samningstilboð hafi verið óviðunandi til þess, og að kröfur blaða- og fréttamanna séu sanngjarnar og sjálfsagðar.
Af þeim sem greiddu atkvæði samþykktu 83,2 prósent með vinnustöðvun en 12,9 prósent á móti. Á kjörskrá voru 211 en 131 félagsmenn greiddu atkvæði, sem er 62,1 prósent. 109 manns greiddu atkvæði með verkfalli. Sautján greiddu gegn verkfalli og auðir eða ógildir seðlar voru fimm.
Þar með voru fjórar vinnustöðvanir samþykktar sem fara fram að óbreyttu í næsta mánuði en sú fyrsta er fyrirhuguð föstudaginn 8. nóvember.
Aðrar þrjár eru skipulagðar þrjá föstudaga eftir það og ná fyrstu þrjár eingöngu til netmiðla, ljósmyndara og tökumanna.
Vinnustöðvanirnar munu ná til blaða-, frétta- og myndatökumanna.