Áslaug Jósepsdóttir, sérfræðingur á skrifstofu almanna- og réttaröryggis dómsmálaráðuneytisins, segir að það kunni að vera að einhverjir gagnaðilar fyrirtækja á Íslandi muni vilja framkvæma auknar áreiðanleikakannanir á íslenskum aðilum eftir að Íslands var sett á gráan lista Financial Action Task Force (FATF) vegna ónógra varna gegn peningaþvætti. Samtökin hafi þó ekki kallað sérstaklega eftir því að slíkar áreiðanleikakannanir séu framkvæmdar á meðan að Ísland er á listanum.
Þetta er meðal þess sem fram kom á fundi sem Samtök verslunar og þjónustu, Samtök ferðaþjónustunnar og Samtök iðnaðarins stóðu fyrir í dag um peningaþvætti.
Áslaug, sem var einn fjögurra sérfræðinga sem hélt erindi, sagði að íslensk stjórnvöld hafi verið í sambandi við stjórnvöld í Serbíu, sem var á listanum í rúmt ár en losnaði af honum í júní síðastliðnum. „Þeirra upplýsingar voru að þeir sáu lítil mælanleg áhrif. Þetta er vissulega orðsporsáhætta og í einhverjum tilvikum þá lentu serbnesk fyrirtæki í því að gagnaðila þeirra framkvæmdu aukna áreiðanleikakönnun. Það kann að vera að einhverjir gagnaðilar fyrirtækja á íslandi vilji framkvæma aukna áreiðanleikakönnun þó svo að FATF kalli ekki eftir því.“
Frekari upplýsingum skilað í nóvember
Ísland var sett á gráa listann þann 18. október síðastliðinn, eða fyrir tæpum tveimur vikum síðan. Áslaug sagði í erindi sínu að stjórnvöld hefðu ekki orðið var við neikvæð áhrif enn sem komið er, en að bæði Seðlabanki Íslands og Fjármálaeftirlitið vakti þá stöðu daglega.
Auk Áslaugar fluttu Eiríkur Ragnarsson og Birkir Guðlaugsson, lögfræðingar hjá Ríkisskattstjóra, og Guðrún Ögmundsdóttir, forstöðumaður á sviði fjármálastöðugleika hjá Seðlabankanum, erindi á fundinum.
Upplýsingafundur um peningaþvættiHér má sjá upptöku af upplýsingafundi um peningaþvætti sem haldinn var á vegum SVÞ, Samtök ferðaþjónustunnar og Samtök iðnaðarins þann 31. október. Á fundinum var farið yfir skyldur tilkynningaskyldra aðila innan raða samtakanna vegna stöðu Íslands á gráum lista Financial Action Task Force (FATF) vegna vegna ónógra varna gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Eftirfarandi aðilar héldu erindi og sátu fyrir svörum: Eiríkur Ragnarsson, lögfræðingur hjá Ríkisskattstjóra Birkir Guðlaugsson, lögfræðingur hjá Ríkisskattstjóra Áslaug Jósepsdóttir, sérfræðingur á skrifstofu almanna- og réttaröryggis Dómsmálaráðuneytisins Guðrún Ögmundsdóttir, forstöðumaður á sviði fjármálastöðugleika hjá Seðlabankanum
Posted by SVÞ - Samtök verslunar og þjónustu on Thursday, October 31, 2019
Kjarninn greindi frá því fyrr í dag að Össur hf. hafi fengið fyrirspurn um veru Íslands á gráa listanum þegar það var í viðræðum um fjármögnun nýverið. Vera Íslands á listanum hafi þó ekki áhrif á starfsemi eða fjármögnun Össurar þar sem að hún fari fram í gegnum erlend dótturfélög. Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar sagði það hins vegar vera mjög alvarlegt mál að Ísland sé á lista sem þessum.
Gerð athugasemd við 51 atriði
Í apríl 2018 skilaði FATF, alþjóðleg samtök sem hafa það hlutverk að móta aðgerðir til að hindra að fjármálakerfið sé misnotað í þeim tilgangi að koma illa fengnu fé aftur í umferð, skýrslu um Ísland. Með því að gerast aðili að samtökunum þá skuldbatt Ísland sig til að undirgangast og innleiða þau skilyrði sem samtökin telja að þurfi að uppfyllast.
Í skýrslu FATF fékk peningaþvættiseftirlit Íslendinga falleinkunn. Alls var gerð athugasemd við 51 atriði í laga- og reglugerðarumhverfi Íslands og því hvernig við framfylgjum eftirliti með peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
Íslandi var gefið fram á mitt ár 2019 til að bregðast við. Ef úrbætur yrðu ekki nægjanlegar, og Ísland færi á jafnvel á lista FATF yfir ósamvinnuþýð ríki myndi það, að mati innlendra hagsmunaaðila, leiða til þess að orðstír og trúverðugleiki Íslands á alþjóðavettvangi biði verulegan hnekki.
Íslenska ríkið brást við með allsherjarátaki. Ný heildarlög um varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka voru samþykkt og fjöldi annarra laga og reglugerða voru uppfærð. Þá voru auknir fjármunir settir í mannaráðningar og kaup á kerfum til að bæta það sem FATF hafði sett út á. En það dugði ekki til og Ísland var, líkt og áður sagði, sett á gráan lista og í aukna eftirfylgni, 18. október síðastliðinn.