Elsa Kristjánsdóttir hefur verið ráðin til starfa hjá Pírötum en hún tekur við hlutverki framkvæmdastjóra Pírata sem áður var í höndum Erlu Hlynsdóttur. Elsa Kristjánsdóttir tekur formlega til starfa 1. febrúar 2020. Starfandi framkvæmdastjóri fram að þeim tíma er núverandi upplýsingastjóri Pírata, Róbert Ingi Douglas.
Frá þessu er greint á vefsíðu Pírata í dag.
Þar kemur jafnframt fram að Elsa hafi starfað sem rekstrar- og fjármálastýra UN Women á Íslandi síðustu misseri þar sem hún hafi borið ábyrgð á bókhald félagsins, utanumhald um rekstur, skýrslugerð til stjórnar, deilda og höfuðstöðva félagsins í New York og séð um skjölun, rekstrar og fjárhagsáætlanagerð.
„Elsa hefur einnig unnið sem bókari og í fjármálum hjá Jarðboranir hf. og Guide to Iceland ehf. Elsa er með BSc-gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands en hún hefur ennfremur lokið námi frá Viðskiptafræðistofnun Háskóla Íslands- rannsóknamiðstöð um stjórnarhætti þar sem hún hlaut titilinn viðurkenndur stjórnarmaður. Elsa stundar nú fjarnám í opinberi stjórnsýslu frá Háskóla Íslands,“ segir á vef Pírata.
Þá kemur fram að Elsa hafi starfað í grasrót Pírata og verið virkur þáttakandi í starfi flokksins síðustu árin. Hún hafi gegnt hinum ýmsu trúnaðarstöðum, til að mynda hafi hún verið formaður fjölmiðlunarhóps, ritari kjördæmafélags, skoðunarmaður reikninga, gjaldkeri framkvæmdaráðs og setið í úrskurðarnefnd.