Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra hefur ákveðið að skipa Magnús Geir Þórðarson í starf þjóðleikhússtjóra. Skipanin gildir í fimm ár, frá og með 1. janúar 2020.
Alls bárust sjö umsóknir um stöðuna og voru fjórir umsækjendanna metnir hæfastir af nefnd sem ráðherra hafði skipað. Þeir fjórir voru boðaðir í viðtal þar sem áhersla var lögð á stjórnunar- og leiðtogahæfileika til viðbótar og stuðnings við það mat sem þegar hafði farið fram. Eftir það var Magnús Geir valinn.
Í fréttatilkynningu segir að Magnús Geir hafi stundað leikstjórnarnám við Bristol Old Vic Theater School (1994) og lauk M.A. gráðu í leikhúsfræðum frá University of Wales (2003). Magnús Geir hefur jafnframt lokið MBA-gráðu frá Háskólanum í Reykjavík (2005). Hann hefur langa og víðtæka stjórnunarreynslu og áratuga reynslu af leikhússtörfum, var leikhússtjóri Borgarleikhússins og Leikfélags Akureyrar á árum áður.
Frá því í mars 2014 hefur hann hins vegar verið útvarpsstjóri RÚV. Fimm ára ráðningartímabili hans í það starf lauk fyrr á þessu ári en Kári Jónasson, stjórnarformaður RÚV, sagði í janúar 2019 við Kjarnann að engin áform væru um að auglýsa starfið, heldur stæði til að endurnýja ráðningu Magnúsar Geirs til annarra fimm ára. Á þeim tíma var gengið út frá því að Magnús Geir sæti í Efstaleiti til ársins 2024.
Í júní í sumar var hins vegar greint frá því að Magnús Geir hefði sótt um stöðu þjóðleikhússtjóra. Í tölvupósti til samstarfsfólks hans á RÚV af því tilefni skrifaði Magnús Geir að þrátt fyrir að vera ánægður í starfi og að allt gengi vel á RÚV þá ætti leikhúsið samt alltaf rosalega stóran sess í hjarta hans. „Eins og þið vitið sjálfsagt, þá hafði ég verið í leikhúsinu allt mitt líf, þegar mér bauðst að taka við stjórn RÚV fyrir rúmum fimm árum. Ég er ótrúlega stoltur af þeim árangri sem við höfum náð í sameiningu á síðustu misserum og ég er mjög ánægður í starfi mínu hér,“ sagði Magnús Geir.
Staða útvarpsstjóra verður því laus til umsóknar í nánustu framtíð.