Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra skaut föstum skotum að þjóðkirkjunni þegar hún ávarpaði Kirkjuþingið í morgun. Hún sagði meðal annars að ekki væri annað hægt en að nefna þátt kirkjunnar í mannréttindabaráttu hinsegin fólks sem hefði bersýnilega sést í þættinum Svona fólk eftir Hrafnhildi Gunnarsdóttur sem sýndur var á RÚV á dögunum.
„Við stöndum reglulega frammi fyrir þeirri áskorun þar sem við þurfum að meta hvort rétt sé að viðhalda íhaldssemi eða horfa með frálslyndari augum á hina ýmsu samfélagshætti. Það er ekki alltaf hægt að sjá það fyrir hvorn veginn skal fara í því samhengi; stundum er ekki bara ágætt heldur nauðsynlegt að halda í gamlar venjur, siði og reglufestu – en oft þurfum við að horfa með opnum hug til þeirrar þróunar sem er að eiga sér stað í samfélaginu, bæði nær og fjær,“ sagði hún.
Ráðherrann benti á að þjóðkirkjan hefði verið afar sein að taka við sér í réttindabaráttu samkynhneigðra. „Fyrir okkur sem yngri erum kemur það okkur spánskt fyrir sjónir hve mikil, andstaða kirkjunnar var við að samkynhneigðir fengju að ala upp börn. Reynslan hefur þó að sjálfsögðu sýnt að þau hafa reynst góðir uppalendur og vitaskuld ekkert síðri en gagnkynhneigðir foreldrar.“
Hún sagði að í ljósi þess að fjölskylduréttur samkynhneigðra væri nú tryggður í löggjöfinni og þeir nytu loks fullra mannréttinda yrði ekki annað sagt en að þjóðkirkjan hefði ekki skilið kall tímans í málefnum samkynhneigðra þegar mest á reið.
Þjóðkirkjan hefði verið í engum takti við þjóðina sem í upphafi aldarinnar hafði að miklum meirihluta snúist á sveif með samkynhneigðum í baráttu þeirra fyrir sjálfsögðum mannréttindum.
Réttindabarátta samkynhneigðra ekki tískubylgja
„Ég nefni þessi mál vegna þess að ég tel að þjóðkirkjan verði að læra af mistökum sínum. Nú vil ég þó sérstaklega taka fram að ég er ekki þeirrar skoðunar að kirkjan eigi að sveiflast með tískubylgjum eða öðrum nútímastraumum. Stór hluti af starfi kirkjunnar felst einmitt í því að standa fast á grunngildum sem vonandi víkja aldrei frá okkur – og kirkja á ekki að láta hina ýmsu sviptivinda slá sig út af laginu,“ sagði hún.
Áslaug Arna brýndi fyrir þinginu að réttindabarátta samkynhneigðra væri ekki tískubylgja. „Hún var ekki merki um hnignun samfélagsins eða afturför góðra gilda. Hún var – og er – hluti af þeirri framþróun mannkyns sem átt hefur sér stað á undanförnum öldum. Afstaða kirkjunnar í málefnum samkynhneigðra fældi marga frá henni, og ekki aðeins samkynhneigða einstaklinga heldur einnig fjölskyldur og vini sem ekki gátu skilið orðræðu forsvarsmanna kirkjunnar um samkynhneigð sem sjúkdóm eða synd.“
Þá sagði hún enn fremur að lífið héldi þó áfram og kirkjan hefði og gæti sýnt kærleikann í verki með ýmsum hætti, með áherslu á umburðarlyndi, skilning og virðingu fyrir náunganum. Ekkert af þessu kallaði á að grunngildum kristinnar trúar væri breytt – þvert á móti. „En þannig sýnir kirkjan að hún hefur lært af mistökunum – með því að beita sér í þágu mannréttinda, standa með fólkinu, mennskunni og sýna kærleika í verki.“
Í morgun ávarpaði ég Kirkjuþing. Það var ekki annað hægt en að nefna þátt kirkjunnar í mannréttindabaráttu hinsegin...
Posted by Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir on Saturday, November 2, 2019