Athygli vakti á Norðurlandaráðsþingi sem haldið var í síðustu viku í Stokkhólmi í Svíþjóð að aktívistinn Greta Thunberg afþakkaði umhverfisverðlaun ráðsins en hún sagði að verðlaun skiptu ekki máli en þakkaði hún jafnframt fyrir þann heiður að hafa verið valin. Hún taldi að heldur þyrfti að virkja samtakamátt fjöldans og þrýsta á stjórnmálamenn og aðra leiðtoga til að berjast gegn mengun af mannavöldum og loftslagsbreytingum.
Þegar Kjarninn falaðist eftir viðbrögðum Guðmundar Ingi Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra við því að Greta afþakkaði verðlaunin benti hann að dómnefndin hefði komist að því að hún væri þess verðug að fá þessi verðlaun. „Ég myndi segja að þar er ég algjörlega sammála dómnefndinni. Það er ótrúlegt hvað Gretu hefur tekist á einu ári að gera. Ekki bara að vekja þennan áhuga og hreyfiafl á meðal ungs fólks heldur á meðal heimsbyggðarinnar – ungra sem aldinna. Og ef einhver manneskja ætti þessi verðlaun skilið á Norðurlöndunum þá væri það hún.“
Hann segist aftur á móti algjörlega virða ákvörðun Gretu að afþakka verðlaunin. „Hún gefur sínar ástæður fyrir því og er hún bara ótrúlega flott manneskja sem er virkilega að berjast fyrir því að við öll gerum betur í þessum málum sem við verðum að gera.“
Greta sagði að stjórnmálamenn og þeir sem sitja við völd þyrftu að fara að hlusta á vísindin. Guðmundur Ingi segir að alltaf sé hægt að hlusta betur. „En svo er það spurningin um að heyra. Þannig að við þurfum að hlusta en jafnframt að heyra og taka alvarlega þess brýningu sem kemur frá henni og í rauninni bara samfélaginu öllu. Ég tek undir það að við þurfum að gera meira og betur á Norðurlöndunum, en þar eru mjög dæmi um þróun sem er og hefur verið að eiga sér stað. Við stöndum til dæmis framarlega þegar kemur að endurnýjanlegum orkugjöfum.“
Guðmundur Ingi segir að Norðurlöndin þurfi núna að einbeita sér að samgöngum. „Þarna þurfa þessi lönd að sameina krafta sína,“ segir hann. Norðmenn er það ríki sem er með hæsta hlutfallið af nýskráðum bifreiðum sem eru visthæfar. Ísland er í öðru sæti á eftir Norðmönnum og segir Guðmundur Ingi að mikilvægt sé að líta á alla þessa þætti en hann tekur byggingariðnaðinn einnig sem dæmi. „Þar er stór geiri sem við verðum að horfa til í auknum mæli. Ég vil líka nefna sérstaklega að sjávarútvegur og landbúnaður er stórir þættir þegar kemur að útlosun sem er á beinni ábyrgð íslenskra stjórnvalda. Og þar þarf að eiga sér stað þessi umbylting í orkukerfunum en það er kannski aðeins lengra í lausnirnar en það þarf virkilega að hraða því.“
Allt alþjóðlegt samstarf skilar einhverjum árangri
Þegar Guðmundur Ingi er spurður út í það hvort þing á borð við Norðurlandaráðsþingið sé þess virði í ljósi þess að slíkt þing hefur stórt kolefnisspor þá segir hann að allt alþjóðlegt samstarf skili einhverjum árangri. „Hins vegar breytir það því ekki að ég held að við getum aukið notkun fjarfundabúnaðar milli stærri funda. Það er aftur á móti mikilvægt að fólk hittist vegna þess að það er öðruvísi dýnamík sem myndast milli fólks þegar það hittist. En það þarf ekki endilega að vera alltaf. Ef við horfum til þess þegar fundirnir eru haldnir á Norðurlöndunum – en til dæmis ekki heima á Íslandi – þá er kolefnissporið minna því hægt er að ferðast með lestum og eru flugin styttri.“
Hann telur þó að þetta sé einn þáttur sem huga þurfi að og að hans mati eigi að stefna að því að kolefnisjafna alla fundi og þing á borð við þetta.
Rannsóknir munu þó ekki bjarga hafinu
Umhverfisráðherrar Norðurlandanna ræddu saman á Norðurlandaráðsþinginu en þeir skrifuðu undir yfirlýsingu um hafið og loftslagsmál. „Við höfum undanfarið verið að fá aukinn þekkingargrunn með skýrslu milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna núna í september og þarna eru Norðurlöndin að taka sig saman og skrifa undir yfirlýsingu þess efnis hversu miklu máli hafið skipti. Sérstaklega hvað varðar loftslagsbreytingar,“ segir hann.
„Við þurfum hvert um sig og í sameiningu að stuðla að því að auka rannsóknir á breytingu sem er að verða í hafinu,“ segir hann enn fremur en Guðmundur Ingi nefnir sem dæmi í því samhengi að á Íslandi hafi stjórnvöld ákveðið að auka rannsóknir á súrnun sjávar. Stórt skref sé að fá upplýsingar um það.
„En rannsóknirnar munu ekki bjarga hafinu heldur þarf að draga úr losun. Þarna er líka verið að horfa til þess að umgangast auðlindir hafsins með sjálfbærum hætti. Það er líka verið að líta til þess hvernig nýta megi betur vernd svæða í hafi til að styðja við getu hafsins til að standast þær breytingar sem eru þó að verða.“
Lögðu áherslu á svokallað hringrásarhagkerfi
Guðmundur Ingi telur að þetta sé mjög tímabær yfirlýsing hjá ráðherrunum. Einnig hafi þau lagt áherslu á fundum sínum á svokallað hringrásarhagkerfi en samkvæmt honum var það rætt mjög ítarlega.
„Hringrásarhagkerfið gengur út á það að í staðinn fyrir að horfa á framleiðslu og þjónustu sem línulega þar sem þú setur hráefnin inn og það verður til einhver vara eða þjónusta og síðan verður til úrgangur sem við hendum þá séum við að reyna að búa til hring úr ferlinu. Við pælum í því hvaða hráefni sé verið að setja inn – hvaða áhrif það muni hafa á náttúruna, hvernig við munum komast af með sem minnst hráefni og hvernig hægt sé að auka ábyrgð framleiðanda. Síðan eftir því sem þetta fer lengra í keðjuna þá kemur neytandinn einnig inn. Svo veltum við því fyrir okkur hvernig við meðhöndlum síðan afgangana sem verða til í kerfinu, það er úrganginn, og könnum hvort við getum nýtt þá með einhverjum hætti þannig að við búum til hagkerfi sem fer í hring en er ekki línulegt,“ segir ráðherrann.
Samhljómur milli ráðherranna
Hann segir að þarna hafi verið gerðar margar rannsóknir víða, sérstaklega í Evrópu, sem sýni að efnahagslega séu tækifæri fólgin í slíku hagkerfi. „Við, norrænu umhverfisráðherrarnir, tókum þá ákvörðun á þinginu að ráðast í norræna úttekt á efnahagslegum áhrifum þess að innleiða hringrásarhagkerfi í okkar löndum. Þetta er held ég dæmigert norrænt samstarf, að draga fram með hvaða hætti getum við sýnt fram á að þetta séu lausnir sem ekki bara skila árangri fyrir loftslagið og það að fara betur með auðlindirnar, heldur felist líka í þeim tækifæri. Að það felist tækifæri í þessum breytingum,“ segir hann.
Mjög mikill samhljómur er milli umhverfisráðherranna, að sögn Guðmundar Inga. „Það er ofboðslega gaman að upplifa að það er mjög mikill samhljómur milli landanna í þessum málum.“
Lausnir sem innihalda náttúruna sem geranda
Jafnframt tóku ráðherrarnir fyrir það sem Ísland hefur lagt áherslu á til fjölda ára og hefur núna fengið nafnið á ensku „Nature based solution“ sem kalla mætti á íslensku „Náttúruvænar lausnir“.
„Það er í rauninni þegar við erum að horfa á það hvernig við getum komið fram með lausnir sem innihalda náttúruna sem geranda. Til að mynda að endurheimta votlendi, þar sem þú ert í rauninni að koma í veg fyrir að koltvísýringur sleppi út í andrúmsloftið. Á sama tíma er verið að endurheimta lífkerfið og að tengja saman þessa tvo þætti,“ segir hann og bætir því við að það sama megi segja um landgræðslu. „Þar er verið að koma í veg fyrir frekari landeyðingu og á sama tíma og verið er að binda kolefni, sem og auka líffræðilega fjölbreytni. Og verið er í rauninni að stuðla að því að mörg sú þjónusta sem vistkerfin veita okkur viðhaldist.“
Guðmundur Ingi segir að Ísland hafi lagt mikla áherslu á þessa þætti á formennskuárinu sínu en í apríl síðastliðnum þegar umhverfisráðherrarnir hittust síðast ákváðu þeir að tekin yrðu saman dæmi af Norðurlöndunum með hvaða hætti þau hafi unnið þetta í hverju landi. „Einnig var þetta mikið til umræðu á Climate summit í New York í september síðastliðnum og er einn af þeim þáttum sem alþjóðasamfélagið er loksins að horfa í mun meiri mæli á. Ísland og fleiri ríki hafa lagt áherslu á þetta lengi í gegnum okkar sögu af landgræðslu,“ segir hann.