Ung kona, Alexandra Ýr Van Erven nemi í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, steig fram í dag og fjallaði um reynslu sína og meint orðaskipti milli Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra og háskólanema í vísindaferð Politica, félags stjórnmálafræðinema, í utanríkisráðuneytið þann 11. október síðastliðinn.
Hún segir á Twitter-síðu sinni að hún hafi farið á frábært málþing á Kynjaþingi í gær þar sem konur í stjórnmálum ræddu meðal annars hvað einkenndi orðræðu gagnvart konum í pólitík á Íslandi. Þessar umræður hafi ýtt mikið á ákveðna hnappa hjá henni sem hafi látið hana langa til að tjá sig um atvik sem hún hafi ekki ætlað að tjá sig um.
Alexandra Ýr segir í frásögn sinni á Twitter að fyrir þremur til fjórum vikum hafi hún átt í einkennilegum orðaskiptum við utanríkisráðherrann, Guðlaug Þór, og hafi hún verið hugsi yfir þeim allar götur síðan.
Hún segist hafa farið með samnemendum sínum í vísindaferð í utanríkisráðuneytið og hafi ráðherra sjálfur haldið kynningu. Eftir á hafi myndast umræður „og bara stuð.“ Á einhverjum tímapunkti hafi Háskólinn komið til tals og þá hafi Guðlaugur Þór farið að tala um hvað skólinn þurfi að nýta sér meira fólk í atvinnulífinu svo nemendur séu betur undirbúnir fyrir þá vinnu sem þau stefna á.
Ég fór á svo frábært málþing á Kynjaþingi í gær þar sem konur í stjórnmálum ræddu m.a. hvað einkenndi orðræðu gagnvart konum í pólitík á Íslandi og þetta ýtti svo mikið á einhverja hnappa hjá mér og lét mig langa til að tjá mig um atvik sem ég hafði ekki ætlað að tjá mig um
— Alexandra Ýr (@alexandravanerv) November 3, 2019
Þá svari hún einhverju á þá leið að það sé nú ekki hlutverk háskóla að framleið starfskrafta fyrir atvinnulífið og að það bjóði í raun upp á stöðnun í samfélaginu að ætla móta háskólamenntun eftir þörfum atvinnulífsins á tilteknum tíma. Þekking sem verður til innan háskólans leiði af sér framþróun í samfélaginu og svo framvegis.
Alexandra Ýr segir að ráðherrann hafi svarað þessum rökum sínum með því að taka dæmi og sagt: „Hvernig litist þér nú á að ég færi að kenna þér að ríða en væri hreinn sveinn en hefði lesið mér hellings til um kynlíf?”
Konur fyrst og fremst metnar út frá því að þær séu konur
Hún segir að til að byrja með hafi þetta náttúrlega bara verið óviðeigandi og frekar „slísí“. „En svo er þetta líka birtingarmynd einhvers miklu stærra. Konur eru fyrst og fremst metnar út frá því að þær séu konur, hversu ríðanlegar þær séu, hversu sætar þér séu og það er á þessum stað sem við erum komin svo ótrúleg stutt í feminískri baráttu. Þetta var ekki bara sagt til að slá mig út af laginu heldur til að smána,“ skrifar hún.
Hún segir jafnframt að varla þurfi að taka það fram að hann hefði aldrei svarað karlkyns nemenda með þessum hætti. Hann hafi staðið sem ráðherra í sínu eigin ráðuneyti fyrir framan hóp af háskólanemum þar sem valdaójafnvægið hafi verið svo gígantískt. Hann hafi leikið sér að því.
„Ég aðallega kasta þessu frá mér því með því að gera það ekki finnst mér ég vera að segja að það sé bara í lagi að svona hegðun viðgangist sem það er auðvitað alls ekki. Og svo er ég svo ótrúlega þreytt á að karlar sem tala svona við konur fái að sitja á þingi kjörtímabil eftir kjörtímabil. Fannst svo leiðinlegt eftir á að hafa ekki brugðist öðruvísi við en að flissa vandræðalega því það er alltaf það sem maður gerir í svona aðstæðum en núna er þetta komið út,“ skrifar hún.
Bað hlutaðeigandi velvirðingar en frábað sér samt þessar ásakanir
Guðlaugur Þór sendi frá sér yfirlýsingu til fjölmiðla í kjölfarið þar sem hann frábiður sér þær ásakanir sem settar hafi verið fram á samfélagsmiðlum um orðbragð og ásetning sem honum sé gerður þar upp.
„Í heimsókn stjórnmálafræðinema í ráðuneytið í nýliðnum mánuði spunnust í hópnum umræður um ummæli mín í viðtali við blað stjórnmálafræðinema um að það styrkti stjórnmálafræðikennslu að kalla til sem gesti stjórnmálamenn sem hefðu reynslu,“ skrifar Guðlaugur í yfirlýsingunni.
„Í spjalli við nemana greip ég til samlíkingar sem eftir á að hyggja var ekki viðeigandi. Hún var á þá leið að stjórnmálafræði og reynsla af störfum á vettvangi stjórnmálanna væru á einhvern hátt sambærileg reynslu og bóknámi í kynfræðslu. Þessu var ekki beint að neinum í hópnum og hvorki sett fram til að ögra né særa heldur sagt í hálfkæringi – og alls ekki með slíku orðavali sem lýst hefur verið á samfélagsmiðlum. Bið ég hlutaðeigandi velvirðingar,“ kemur enn fremur fram í yfirlýsingunni.
Svona hegðun fullkomlega óviðeigandi
Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, segir á Twitter-síðu sinni að svona hegðun sé fullkomlega óviðeigandi. Sér í lagi tveimur árum eftir #MeToo. Vísar þá hún í tíst Alexöndru.
Svona hegðun er fullkomlega óviðeigandi. Sér í lagi 2 árum eftir #MeToo https://t.co/6zki2d9exx
— Rósa Björk B (@RosaBjorkB) November 3, 2019
Hún deilir jafnframt tísti frá Nönnu Hermannsdóttur sem segir: „Ung kona segist vera misboðið þegar maður í valdastöðu talaði niðrandi til hennar. Hann afsakar sig með að hafa aldrei notað orðið „ríða“. Hann kom með kynlíf samlíkingu þegar það kom málinu ekkert við.“
Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, segir í athugasemd undir færslu Alexöndru Ýrar vera svo orðlaus og reið að hún viti ekki hvar eigi að byrja. Þetta sé akkúrat það sem þær hafi verið að tala um í gær og að því verði að breyta. Vísar hún væntanlega í Kynjaþingið sem haldið var í gær.
Líklega ekkert illt meint
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, segir á Facebook-síðu sinni í dag þetta vera ágætis dæmi um mál þar sem báðir aðilar geti haft rétt fyrir sér. „Já, óviðeigandi á nákvæmlega þann hátt sem Alexandra segir að þetta sé birtingarmynd slæmrar hegðunar gagnvart konum ... og já, líklega ekkert illt meint,“ skrifar hann.
Hann segir enn fremur að fólk lendi nefnilega oft í því að horfa á svona mál og ákveða það sem keppni um hver hafi rétt fyrir sér þegar einnig sé möguleiki á að báðir aðilar hafi rangt fyrir sér eða báðir hafi rétt fyrir sér. „Í þeim tilvikum er oft skortur á gagnkvæmum skilningi á réttmæti hins aðilans sem leiðir til rifrildis sem nær engri niðurstöðu nema pólaríseringu.“
Þetta er ágætis dæmi um mál þar sem báðir aðilar geta haft rétt fyrir sér. Já, óviðeigandi á nákvæmlega þann hátt sem...
Posted by Björn Leví Gunnarsson on Sunday, November 3, 2019
Fullyrða að túlkun Alexöndru hafi verið ónákvæm
Í frétt Vísis um málið kemur fram að aðrir nemendur sem urðu vitni að umræddu samtali hafi fullyrt að túlkun Alexöndru á orðaskiptunum hafi verið ónákvæm. Sex þeirra hafi staðfest við fréttastofu að utanríkisráðherra hafi raunar ekki notað orðið „ríða“ í svari sínu. Þeir sammældust þó allir um það að atvikið hafi verið mjög óþægilegt og samlíkingin hafi verið mjög óviðeigandi.
„Við fórum í vísindaferð í Utanríkisráðuneytið og þar barst umræðan að því hvernig stjórnmálafræðinám nýttist í starfi/praktík. Þá hófust skoðanaskipti á milli eins nemanda og ráðherra þar sem hann á endanum heimfærði útskýringuna á heldur kumpánlegan hátt: „...það væri eins og einhver ætlaði að fara að kenna kynfræðslu, en væri sjálfur hreinn sveinn en hefði lesið sér til í bókum um efnið...“,“ sagði Þórunn Soffía Snæhólm, sem situr í stjórn félags stjórnmálafræðinema, í svari sínu til fréttastofu.
„Hann sagðist aldrei ætla að kenna henni að „ríða“ eins og hún orðaði það á Twitter, hann notaði aldrei þessi orð. Mín skoðun er sú að orðræða ráðherra hafi ekki verið sú besta og hið sama má segja um stílfæringu Alexöndru,“ kom jafnframt í svari Þórunnar.
Átti ekki að vera að tala um kynlíf yfirhöfuð
Að sögn Alexöndru Ýrar bjóst hún ekki við að málið færi á þann hátt sem það hefur nú gert. „Það er ekki kjarni málsins hvaða orð ráðherra notaði um það að stunda kynlíf. Merkingin er sú sama og umræða um annað er einungis til þess gerð að afvegaleiða hana,“ segir Alexandra Ýr í samtali við Fréttablaðið.
„Punkturinn er sá að hann átti ekkert að vera að tala um kynlíf yfirhöfuð. Framsetning Guðlaugs var augljóslega smækkandi fyrir mig og gerð til að slá sjálfum sér á brjóst. Ráðherra sýnir gríðarlegt dómgreindarleysi," segir Alexandra Ýr að lokum.