Í lok september námu heildareignir íslenskra innlánsstofnanna 3.930 milljörðum króna, og þar af voru eignir sem skilgreindar eru sem erlendar eignir, meðal annars útlán í erlendri mynt, 451,7 milljörðum króna. Það þýðir að á þennan mælikvarða er íslenska bankakerfið 88,6 prósent í íslenskum eignum, en 11,4 prósent í erlendum.
Segja má að bankakerfið hafi nær alveg kúvenst frá því sem var uppi á teningnum fyrir hrun bankanna, en þá var það um 85 prósent erlendis en 15 prósent á Íslandi. En það var miðað við stöðuna eins og hún birtist í ársreikningum bankanna.
Auk þess sem bankakerfið hefur breyst mikið frá því sem var, þegar kemur að hlutfalli erlendra og innlendra eigna, þá hefur það einnig minnkað mikið, og er nú um það bil ein landsframleiðsla á ári að stærð. Fyrir hrun var það um tíföld árleg landsframleiðsla.
Innlendu eignirnar hækkuðu um 4,5 milljarða frá ágúst mánuði, en erlendar eignir lækkuðu um 17,8 milljarða frá mánuðinum á undan.
Þetta má sjá í hagtölum Seðlabanka Íslands.
Stóru bankarnir þrír, Arion banki, íslandsbanki og Landsbankinn, högnuðust um 25 milljarða á fyrstu níu mánuðum ársins. Þar af nam hagnaður Landsbankans 14,4 milljörðum. Hagnaður Íslandsbanka var 6,8 milljarðar og hagnaður Arion banka 3,8 milljarðar.
Arðsemi eigin fjár bankanna hefur farið minnkandi og hagræðing hefur verið umtalsverð á skömmum tíma. Þannig hafa stóru bankarnir þrír, sem eru skilgreindir sem kerfislægt mikilvægir, fækkað um 200 starfsmenn frá því í fyrra, en engu að síður er arðsemi eigin fjár fremur lág, eða á bilinu 1,6 til 7,9 prósent.