Lagt hefur fram frumvarp til laga um breytingu á hjúskaparlögum. Fyrsti flutningsmaður er Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar, en með honum eru sex þingmenn úr hans eigin flokki sem og Pírötum og Vinstri grænum.
Sambærilegt frumvarp var lagt fram á síðasta þingi en hlaut ekki afgreiðslu og er það nú lagt fram með töluverðum breytingum og viðbótum í greinargerð.
Með frumvarpinu eru lagðar til ferns konar breytingar á hjúskaparlögum. Í fyrsta lagi er lagt til að tímamörk lögskilnaðar verði hin sömu hvort sem hann er að kröfu annars hjóna eða beggja. Í öðru lagi er lagt til að lögskilnaður verði einfaldaður þegar hjón eru ekki einhuga um að leita hans og tryggja fólki jafnframt aukið frelsi við ákvörðun hjúskaparskráningar sinnar.
Í þriðja lagi er lagt til að lögskilnaður á grundvelli heimilisofbeldis verði gerður að raunhæfu úrræði fyrir þolendur slíkra brota. Í fjórða lagi er hér lagt til að sáttaumleitan verði færð í form samtals um forsjá barna. Markmið framangreindra breytinga er að styrkja stöðu þolenda ofbeldis og tryggja rétt þeirra til að slíta hjúskap.
„Hjúskapur er lögbundið og formlega staðfest samkomulag tveggja einstaklinga um að verja lífinu saman og deila ábyrgð á heimili og börnum. Hjúskap fylgja jafnframt skyldur til trúmennsku og framfærslu sem og réttur til erfða falli annað hjóna frá. Grundvöllur hjúskapar er samkomulagið og getur fólk undirgengist og fallið frá því samkomulagi á eigin forsendum, að lagalegum skilyrðum uppfylltum,“ segir í greinargerðinni.
Þá kemur fram að tölfræðigögn Hagstofu Íslands sýni að um 85 prósent skilnaða að borði og sæng ljúki með lögskilnaði. Engin gögn séu til um það á hvaða tímabili skilnaðar að borði og sæng þau 15 prósent hjóna sem ekki óska lögskilnaðar taki saman á ný. Þá sé heldur engum opinberum upplýsingum til að dreifa um hversu hátt hlutfall hjóna sem slíta samvistum vegna ósamlyndis krefjist að endingu lögskilnaðar. Ætla verði að hálft ár í kjölfar skilnaðar að borði og sæng og heilt ár í kjölfar samvistaslita vegna ósamlyndis dugi fólki til sátta þegar grundvöllur sé á annað borð til staðar fyrir sáttum. Sé grundvöllur fyrir sáttum sé fólki einnig heimilt að taka lengri tíma til þess en þann lágmarkstíma sem kveðið er á um í lögum.
Mikilvægt að gildandi hjúskaparlög spegli tíðaranda
Gildandi hjúskaparlög voru sett árið 1993 en ákvæði þeirra um hjónaskilnaði eru að mörgu leyti áþekk ákvæðum eldri laga um hjúskap um stofnun og slit hjúskapar, sem einnig höfðu tekið takmörkuðum breytingum, að því leyti sem frumvarp þetta tekur til, frá enn eldri lögum að undanskilinni jöfnun tímamarka milli ákvæða.
Mikilvægt er að mati flutningsmanna að gildandi hjúskaparlög spegli tíðaranda. „Hafa samfélagslegar áherslur tekið nokkrum breytingum til dagsins í dag, meðal annars þegar litið er til hlutverka og valdastöðu kynjanna á heimilinu og einstaklingsfrelsis auk stöðu og mikilvægis hjónabandsins sem grundvallareiningar í samfélaginu,“ segir í greinargerðinni með frumvarpinu.
Ekki jafnsterk rök fyrir hinum víðtæku takmörkunum fyrir lögskilnaði
Þá kemur enn fremur fram að þrátt fyrir að hjónabandið sé mikilvæg grunneining samfélagsins hafi vægi hjónabandsins minnkað með tilkomu fjölbreyttari sambúðarforma, auknum samfélagslegum stuðningi við einstæða foreldra og viðurkenningu samfélagsins á ólíku fjölskyldumynstri. Eru því að mati flutningsmanna ekki jafnsterk rök fyrir hinum löngu tímamörkum og víðtæku takmörkunum fyrir lögskilnaði og voru á fyrri tímum, sérstaklega þar sem tímamörkin og takmarkanirnar reynast þolendum ofbeldis í hjúskap afar íþyngjandi.
Í greinargerðinni segir að við vinnslu frumvarpsins hafi verið leitað sem víðtækasts samráðs við samtök og fólk sem hefur reynslu og sérþekkingu á sviði hjúskapar- og heimilisofbeldismála, með viðtölum og fundum. Hafi meðal annars verið rætt við lögfræðinga frá sýslumanni, Kvennaathvarfinu og lögreglunni og fundað með fólki sem hefur rekist á veggi laganna við að leita skilnaðar eftir að hafa mátt þola ofbeldi af hálfu maka.
Skilnaðarferlið reynist þolendum ofbeldis flókið og þungt
Í samráðinu hafi meðal annars komið fram að skilnaðarferlið reynist þolendum ofbeldis flókið og þungt þegar sameiginlegar eignir og börn eru til staðar. Í mörgum tilvikum hafi dvöl kvenna í Kvennaathvarfinu lengst vegna þess að þar til skilnaður er genginn í gegn eigi þær ekki rétt á fjárhagslegum stuðningi, fullum barnabótum og annarri félagsaðstoð sem þær ættu væru þær skráðar einstæðar mæður.
„Því lengur sem skilnaður dregst, þeim mun líklegra er að þær leiti aftur á heimili ofbeldismanna sem er að mati flutningsmanna óboðleg staða. Þá kom einnig fram að samkvæmt kenningum fræðimanna eru ofbeldisáhrif gerenda enn til staðar löngu eftir að sótt hefur verið um skilnað sem hvort tveggja rennir frekari stoðum undir framangreinda nálgun og er til marks um að ákvæði 35. gr. hjúskaparlaga sé sérstaklega ósanngjarnt og íþyngjandi fyrir þolendur heimilisofbeldis,“ segir jafnframt í greinargerðinni.