Nýtt íslenskt flugfélag mun kynna áform sín, að minnsta kosti að hluta, á blaðamannafundi í Perlunni á morgun. Samkeppni er mögulega á sjóndeildarhringnum í íslenskum flugheimi.
WAB air, flugfélag sem tveir fyrrverandi stjórnendur hjá WOW air ásamt hópi fjárfesta hefur unnið að því að koma í loftið frá því síðla í vor, hefur boðað til blaðamannafundar í Norðurljósasal Hörpu á morgun. Þeir sem staðið hafa að stofnun flugfélagsins hafa ekkert tjáð sig um stöðu mála né fjármögnun frá því að ferlið hófst og því viðbúið að morgun verði sýnt í fyrsta sinn á spilin.
Í júní var greint frá því í Fréttablaðinu að WAB air, sem stendur fyrir „We Are Back“, væri meðal annars að undirlagi Avianta Capital, írsks fjárfestingarsjóðar, sem hefði skuldbundið sig til að leggja félaginu til 40 milljónir dala, jafnvirði rúmra fimm milljarða króna í nýtt hlutafé.
Ferðaþjónustufréttavefurinn Túristi sagðist í dag hins vegar hafa heimildir fyrir því að einnig hafi verið leitað til íslenska fjárfesta að undanförnu í von um safna hátt í tveimur milljörðum króna í hlutafé. „Þau áform sem fjárfestunum hafa verið kynnt ganga meðal annars út á að flugfélagið flytji um hálf milljón ferðamanna til Íslands á næsta ári. Sú tala er vísbending um að flugfélagið þurfi að lágmarki 5 til 6 flugvélar af því gefnu að hlutfall erlendra ferðamanna í vélunum verði nokkuð hátt á kostnað tengifarþega til að byrja með.“
Í minnisblaði sem Fréttablaðið fjallaði um í júní kom fram að til stæði að WAB air myndi hefja rekstur haustið 2019 og yrði með sex vélar í rekstri fyrsta árið. Gert var ráð fyrir að flugfélagið muni fljúga til fjórtán áfangastaða í Evrópu og Bandaríkjunum og að ein milljón farþega ferðist með flugfélaginu. Þá var stefnt að því að fimm hundruð starfsmenn yrðu ráðnir til flugfélagsins á tólf mánuðum. Jafnframt er gert ráð fyrir að velta félagsins myndi nema tuttugu milljörðum króna á næsta ári.
Avianta Capital, sem sagt var vera með í áformunum samkvæmt minnisblaðinu, er í eigu Aisilinn Whittley-Ryan, dóttur eins af stofnenda Ryan air. Sem endurgjald fyrir framlag sitt til verkefnisins átti Avianta Capital að eignast 75 prósenta hlut í félaginu.
Þá átti 25 prósent flugfélagsins að vera í eigu félagsins Neo. Það félag er í eigu Arnars Más Magnússonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra flugrekstrarsviðs WOW, Sveins Inga Steinþórssonar, úr hagdeild WOW, sem sat í framkvæmdastjórn flugfélagsins, Boga Guðmundssonar, lögmanns hjá Atlantik Legal Services og stjórnarformanns BusTravel, og Þórodds Ara Þóroddssonar, ráðgjafa í flugvélaviðskiptum.
Samkvæmt umfjöllun Fréttablaðsins í júní átti Sveinn Ingi forstjóri flugfélagsins ef áformin myndu ganga eftir og Arnar Már að gegna starfi aðstoðarforstjóra og framkvæmdastjóra flugrekstrar.