Vegna áforma um stofnun nýs íslensks flugfélags, Play, hefur Alþýðusamband Íslands (ASÍ) sent frá sér tilkynningu um að gerð verði krafa um að flugfélagið gangi til kjarasamninga um kjör starfsmanna sinna áður en það hefur sig til flugs.
„ASÍ mun ekki láta það yfir íslenskt launafólk ganga að félagsleg undirboð og lögbrot fyrirtækja eins og Primera Air verði endurtekin eða látin átölulaus af stjórnvöldum,“ segir í tilkynningu ASÍ.
Ógrynni af fólki ráðið á næstunni
Nýtt íslenskt lágfargjaldaflugfélag kynnti vörumerkið sitt og fyrirhugaða starfsemi á kynningarfundi í Perlunni í morgun.
Unnið hefur verið að stofnun félagsins í nokkra mánuði en lykilfólk í hópnum á bak við stofnun félagsins eru fyrrverandi stjórnendur hjá WOW air. Það var mótað undir vinnuheitinu WAB Air en mun heita Play.
Arnar Már Magnússon, nýr forstjóri flugfélagsins, vildi ekki svara því hvenær fyrsta flug Play yrði en sagði á kynningunni að það myndi verða gefið út þegar sala miða hefst síðar í þessum mánuði. Arnar Már sagði jafnframt að félagið þyrfti að ráða inn „ógrynni“ af fólki á næstunni.
„Við erum íslenskt flugfélag með höfuðstöðvar á Íslandi og verðum með íslenska samninga við starfsfólk. Það eru allir velkomnir til okkar, Íslendingar og aðrir,“ sagði Arnar Már.
Félagslegt undirboð ekki í boði
Í kjölfarið sendi ASÍ frá tilkynningu þar sem tekið er fram að ASÍ geri kröfu um að fyrirtækið, líkt og aðrir atvinnurekendur sem starfa hér á landi, gangi til kjarasamninga fyrir fyrsta flug.
„ASÍ treystir því að hið nýja fyrirtæki ætli sér ekki að keppa á íslenskum flug- og ferðamarkaði á grundvelli félagslegra undirboða. ASÍ mun ekki láta það yfir íslenskt launafólk ganga að félagsleg undirboð og lögbrot fyrirtækja eins og Primera Air verði endurtekin eða látin átölulaus af stjórnvöldum,“ segir í tilkynningunni.