Mosfellsbær er sjöunda fjölmennasta sveitarfélag landsins með tæplega 12.000 íbúa. Á síðasta áratug hefur þar orðið mesta íbúafjölgun allra sveitarfélaga landsins að undanskildu Álftanesi. Samhliða mikilli fjölgun Mosfellinga hefur íbúðum í sveitarfélaginu fjölgað mest af öllum sveitarfélögum landsins á síðustu tíu árum.
Reikna með að íbúum fjölgi um 5,9 prósent á næsta ári
Mosfellingum hefur fjölgað um 3.600 manns frá árinu 2009 eða alls um 39 prósent. Þá hefur sveitarfélagið vaxið sérstaklega hratt á síðustu tveimur árum og frá 1. desember í fyrra hefur íbúum Mosfellsbæjar fjölgað um 5 prósent, samkvæmt tölum Þjóðskrár. Til samanburðar fjölgaði íbúum Reykjavíkur um 1,7 prósent.
Í forsendum fjárhagsáætlunar sveitarfélagsins fyrir næsta ár kemur fram að bæjarstjórn Mosfellsbæjar miðar við að íbúum sveitarfélagsins fjölgi um 5,9 prósent á næsta ári.
„Það er okkur Mosfellingum sem fyrr fagnaðarefni að rekstur og starfsemi Mosfellsbæjar er í miklum blóma og kraftur einkennir samfélagið okkar sem er í örum vexti. Íbúar eru nú um 12.000 og heldur áfram að fjölga á næsta ári. Við þurfum í sameiningu að treysta og viðhalda þeim einkennum sem við vitum að eru einn af lyklum velgengni okkar sem sveit í borg þannig að vöxtur sveitarfélagsins hafi jákvæð áhrif á bæjarbraginn, þjónustu og þjónustustig,“ segir Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar.
Íbúðauppbygging mest í Mosfellsbæ
Sveitarfélagið er landmikið og spannar um 220 ferkílómetra. Bæjarfélagið samanstendur af þéttbýliskjarna við Leirvog auk víðáttumikillar sveitar, svo sem í Mosfellsdal.
Samhliða gríðarlegri fjölgun íbúa hefur íbúðauppbygging í sveitarfélaginu einnig verið hröð. Raunar hefur íbúðauppbygging verið mest í Mosfellsbæ af öllum sveitarfélögum landsins síðasta áratug, en skráðum íbúðum hefur fjölgað þar um 36 prósent frá árinu 2009.
Alls hafa 1.191 íbúðir risið í Mosfellsbæ á síðustu tíu árum, samkvæmt skýrslu Íbúðalánasjóðs. Þá eru alls 459 íbúðir í byggingu í sveitarfélaginu, samkvæmt nýjustu talningu Samtaka iðnaðarins í september síðastliðnum.