Arnar Már Magnússon verður nýr forstjóri flugfélagsins Play, sem opinberað var í dag. Auk Arnars Más verða þeir Sveinn Ingi Steinþórsson, sem verður fjármálastjóri, Bogi Guðmundsson, sem mun halda utan um lögfræðisviðið, og Þóróddur Ari Þóroddsson, sem verður meiðeigandi.
Unnið hefur verið að stofnun félagsins í nokkra mánuði undir heitinu WAB Air, en það stóð fyrir „We Are Back“. Lykilfólk í hópnum á bakvið stofnun félagsins eru fyrrverandi stjórnendur hjá WOW air. Til að byrja með ætlar Play að gefa eitt þúsund frí flugmiða til þeirra sem skrá sig á heimasíðu félagsins nú, en vefslóð hennar verður www.flyplay.com.
Arnar Már vildi ekki svara því hvenær fyrsta flug Play yrði, en að það myndi verða gefið út þegar sala miða myndi hefjast í nánustu framtíð.
Play ætlar að tengja Norður Ameríku við Íslands og Evrópu, en Arnar Már fór ekki yfir nákvæmlega hverjir áfangastaðir félagsins yrðu né í hvaða skrefum þeir myndu koma inn. Í vor er stefnt að því að fjölga vélum félagsins í sex og hefja þá flug til Norður Ameríku.
Félagið er fjármagnað til lengri tíma í samvinnu við breskan fagfjárfestasjóð og fjármálafyrirtækið Íslensk verðbréf. Skiptingin verður þannig að 80 prósent af fjármagninu mun koma erlendis frá en fimmtungur frá Íslandi.
Á kynningu sem nú stendur yfir í Perlunni sagði Arnar Már að vinna við að fá flugrekstrarleyfi væri á lokametrunum. Sömuleiðis væri vinna við að fá inn flugvélar í verkefni félagsins langt komin. Þá er bókunarvél Play tilbúin og heimasíðan félagsins fer í loftið von braðar. Sala er ekki hafin, þar sem flugrekstrarleyfið er ekki komið, en til stendur að sala hefjist í nóvember.
Play ætlar að standa fyrir öryggi, sérstaklega rekstraröryggi, og stundvísi. Þá sagði Arnar Már að flugfélagið vilji vera einfalt. Í því felst meðal annars að vera með einfaldan flotastrúktúr, þ.e. að fljúga einni gerð véla, Airbus A320. Sú vél er með þeim sparneytnari sem finnast og á að henta vel leiðarkerfi hins nýja félags.
Play verður lágfargjaldaflugfélag sem mun bjóða upp á hagstæð verð.„Nafnið Play lýsir þessu félagi mjög vel. Við förum til útlanda til þess að leika okkur,“ sagði Arnar Már á fréttamannafundinum.