Tekjur Viðreisnar voru alls 61,1 milljón króna í fyrra. Að uppistöðu komu þær tekjur úr ríkissjóði, eða 49,7 milljónir króna. Það þýðir að 81,3 prósent af tekjum flokksins komu úr sameiginlegum sjóðum. Rekstur Viðreisnar kostaði alls 58,7 milljónir króna í fyrra og því skilaði reksturinn smávægilegum hagnaði. Flokkurinn skuldaði 8,6 milljónir króna í lok síðasta árs og lækkuðu skuldir hans milli ára úr 10,2 milljónum króna.
Þetta er á meðal þess sem fram kemur í útdrætti úr ársreikningi Viðreisnar sem Ríkisendurskoðun birti í dag. Þetta er fyrsti útdrátturinn úr ársreikningi flokka sem eiga sæti á Alþingi sem stofnunin birtir vegna ársins 2018. Viðreisn fékk 6,7 prósent atkvæða í kosningunum 2017 og fjóra þingmenn kjörna. Flokkurinn hafði fengið 10,5 prósent atkvæða og sjö þingmenn í kosningunum sem haldnar voru árið áður. Þrátt fyrir færri þingmenn á árinu 2018 en þorra ársins 2017 um 11,1 milljón króna milli ára.
Þegar kosið verður næst, árið 2021, munu flokkarnir átta sem náðu inn á þing í haustkosningunum 2017 verða búnir að fá alls úthlutað rúmlega 2,8 milljörðum króna úr ríkissjóði vegna áranna 2018-2021 til að standa straum af starfsemi sinni.
Eigandi Fréttablaðsins á meðal helstu styrkjenda
Þrír lögaðilar og einn einstaklingur gáfu Viðreisn hámarksfjárhæð í framlag sem lög heimila á síðasta ári, eða 400 þúsund krónur. Um er að ræða félagið Varðberg ehf., í eigu Helga Magnússonar, Brim hf., sem nú heitir Útgerðarfélag Reykjavíkur og er að mestu í eigu Guðmundar Kristjánssonar, og Símann, sem er skráð félag á markaði. Einstaklingurinn sem gaf 400 þúsund krónur heitir Páll Árni Jónsson.
Auk þess gáfu þrír lögaðilar flokknum 300 þúsund krónur í fyrra. Þeir eru KP Capital, í eigu Kristínar Pétursdóttur, Th. Magnússon ehf., í eigu Þórðar Magnússonar stærsta eiganda Eyris Invest, og Samskip, skipafélag í eigu Ólafs Ólafssonar. Þessir þrír lögaðilar gáfu Viðreisn 300 þúsund krónur í fyrra.
Helgi Magnússon og aðilar tengdir honum hafa verið á meðal helstu fjárhagslegra bakhjarla Viðreisnar frá því að flokkurinn var stofnaður árið 2016. Á fyrsta starfsári sínu mega stjórnmálaflokkar fá hærri framlög en hið lögbundna hámark segir til um. Alls gaf Helgi 1,6 milljónir króna beint og í gegnum eignarhaldsfélög sín og fyrirtæki þar sem hann er stór hluthafi og stjórnarmaður gáfu 800 þúsund krónur til viðbóta á því ári. Í fyrra gaf Helgi Viðreisn 400 þúsund krónur. Hann keypti á þessu ári allt hlutafé í Torgi, útgáfufélagið Fréttablaðsins.
Ný lög samþykkt í fyrra
Ný lög um fjármál stjórnmálaflokka voru samþykkt á Alþingi í desember í fyrra. Á meðal breytinga sem þau lög fela í sér eru að stjórnmálaflokkar mega nú taka á móti hærri framlögum frá fyrirtækjum og einstaklingum. Hámarksframlagið var 400 þúsund krónur en var hækkað í 550 þúsund krónur.
Hugtakið „tengdir aðilar“ var líka samræmt, en Ríkisendurskoðun gerði í fyrra athugasemdir við umframframlög aðila sem voru gefin í gegnum nokkur mismunandi félög í eigu sömu aðila.
Þá var ákveðið að láta stjórnmálaflokkanna skila ársreikningum sínum til ríkisendurskoðanda fyrir 1. nóvember ár hvert í stað 1. október líkt og nú er. Sú grundvallarbreyting fylgdi með að Ríkisendurskoðun mun hætta að birta takmarkaðar upplýsingar úr reikningum flokkanna, svokallaðan útdrátt, og birtir þess í stað ársreikninganna í heild sinni áritaða af endurskoðendum.
Þessi breyting á hins vegar ekki að taka gildi fyrr en á næsta ári, þrátt fyrir að nýju lögin séu þegar komin í gagnið.