Blaðamenn og fréttastjórar á frétta- og íþróttadeild mbl.is hafa sent frá sér yfirlýsingu vegna meintra verkfallsbrota á miðlinum í dag en hún birtist á vef Blaðamannafélags Íslands. Þeir lýsa yfir vonbrigðum með það framferði og þau viðhorf til löglega boðaðra aðgerða sem birtust á miðlinum í dag.
Í yfirlýsingunni kemur fram að klukkan 10 í morgun hafi blaðamenn á fréttadeild og íþróttadeild mbl.is lagt niður störf, rétt eins og blaðamenn í Blaðamannafélagi Íslands á netmiðlum RÚV, Torgs og Sýnar gerðu, í samræmi við tímabundna vinnustöðvun blaðamanna á netmiðlum sem samþykkt var í atkvæðagreiðslu félagsmanna Blaðamannafélags Íslands 30. október síðastliðinn til áréttingar kröfum félagsmanna í Blaðamannafélaginu í kjaradeilu félagsins við Samtök atvinnulífsins.
„Um leið og blaðamenn á mbl.is lögðu niður störf í morgun tóku nokkrir blaðamenn á Morgunblaðinu, sem að öllu jöfnu skrifa ekki fréttir á mbl.is, til við að skrifa fréttir á mbl.is. Að auki voru fyrrverandi sumarstarfsmaður og lausapenni á Morgunblaðinu kallaðir til til þess að skrifa fréttir á mbl.is á meðan þeir blaðamenn miðilsins, sem voru á vakt á þessum tiltekna tíma, lögðu niður störf í samræmi við löglega boðaðar aðgerðir sem stóðu til klukkan 14,“ segir í yfirlýsingunni.
Fram kemur hjá blaðamönnunum og fréttastjórunum að þessi umræddu fréttaskrif hafi verið með vitund og vilja ritstjóra og framkvæmdastjóra Morgunblaðsins.
Skrifin í dag ekki á þeirra ábyrgð
„Við undirrituð blaðamenn og fréttastjórar á frétta- og íþróttadeild mbl.is lýsum yfir vonbrigðum með þetta framferði og þau viðhorf til löglega boðaðra aðgerða sem þarna birtast. Við teljum að þetta framferði sé til þess fallið að varpa rýrð á mbl.is, ekki síst þá blaðamenn sem þar starfa og leitast eftir fremsta megni við að sinna starfi sínu af heilindum og fagmennsku. Að okkar mati er þetta síst til þess fallið að finna vænlega lausn á kjaradeilunni sem nú stendur yfir.
Með því að senda þessa yfirlýsingu viljum við að það komi skýrt fram að þær fréttir og umfjallanir, sem skrifaðar voru og birtar á mbl.is á meðan á löglega boðuðum aðgerðum félaga í Blaðamannafélagi Íslans stóð, eru ekki á okkar ábyrgð,“ segir að lokum í yfirlýsingunni en undir hana skrifa 17 blaðamenn og fréttastjórar.