„Í gærkvöldi kynnti ríkisstjórnin breytingartillögur sínar á fjárlagafrumvarpinu og er ein þeirra sérstaklega fréttnæm. Þá tillögu vilja sumir í stjórnarflokkunum örugglega tala sem minnst um.
1. Því seint í gærkvöldi lagði ríkisstjórnin til að veiðileyfagjöldin verði lækkuð talsvert meira en til stóð fyrir eingöngu tveimur mánuðum þegar fjárlagafrumvarpið var lagt fram. Ríkisstjórnin vill nú lækka veiðileyfagjöldin um 2 milljarða kr til viðbótar en þá mun veiðileyfagjaldið hafa lækkað um meira en helming síðan þessi ríkisstjórn tók við völdum og farið úr 11,2 milljörðum og í 5 milljarða kr.“
Þetta kemur fram í facebook-færslu Ágústs Ólafs Ágústssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, sem birt var í dag. Hann bendir á að með breytingunni muni reykingarfólk og aðrir tóbaksnotendur, um átta prósent af þjóðinni, greiða meira til samneyslunnar á næsta ári í tóbaksgjald en kvótahafa greiða fyrir afnot af fiskveiðiauðlindinni.
Þar segir hann einnig að veiðigjaldið sé nú orðið svo lágt að það dekki ekki þann kostnað sem skattgreiðendur verði fyrir vegna þjónustu hins opinbera gagnvart atvinnugreininni. „Samkvæmt lögum eiga veiðileyfagjöld m.a. að mæta þeim kostnaði, sem vill svo til að er 5,1 milljarður og er því hærri en það sem ríkisstjórnin leggur nú til að veiðileyfagjöldin verði.“
Ótrúlegt góðæri í greininni síðastliðinn áratug
Kjarninn greindi frá því í lok september að íslensk sjávarútvegsfyrirtæki hafi átt eigið fé upp á 276 milljarða króna í lok síðasta árs. Frá hruni hefur eiginfjárstaða sjávarútvegsfyrirtækjanna batnað um 355 milljarða króna, en hún var neikvæð í lok árs 2008.
Alls greiddu fyrirtækin sér arð upp á 12,3 milljarða króna í fyrra. Frá árinu 2010 hafa þau greitt 92,5 milljarða króna til eigenda sinna í arðgreiðslur.
Samanlagt hefur hagur sjávarútvegarins, því vænkast um 447,5 milljarða króna frá árinu 2008 og út síðasta ár, eða á einum áratug.
Veiðigjöld voru 11,3 milljarðar króna í fyrra, sem eru þau hæstu sem geirinn hefur greitt. Það nánast tvöfölduðust milli ára, úr 6,8 milljörðum króna árið 2017. Samtals frá árinu 2011, og út síðasta ár, greiddi sjávarútvegurinn 63,3 milljarða króna í veiðigjöld.
Veiðigjöldin áttu að lækka á þessu ári, og áætlað var að þau myndu skila um sjö milljörðum króna í ríkiskassann í ár og nánast sömu upphæð á árinu 2020, samkvæmt fjárlagafrumvarpinu. Nú virðist sem að þau verði enn lægri á næsta ári en til stóð.
Ný lög um veiðigjald tóku gildi um síðustu áramót þar sem meðal annars var settur nýr reiknistofn sem byggist á afkomu við veiðar hvers nytjastofns. Í fjárlagafrumvarpinu sagði að með breytingunum sé dregið úr töf við meðferð upplýsinga um átta mánuði. „Þá er veiðigjaldið nú ákveðið fyrir almanaksár í stað fiskveiðiárs.“
Í gærkvöldi kynnti ríkisstjórnin breytingartillögur sínar á fjárlagafrumvarpinu og er ein þeirra sérstaklega fréttnæm....
Posted by Ágúst Ólafur Ágústsson on Friday, November 8, 2019