Róbert Wessman, forstjóri Alvogen, keypti í gær hlut í Sýn í gegnum fjárfestingafélagið Frostaskjól ehf. Heildarvirði viðskiptanna var um 600 milljónir króna. Með kaupunum er Róbert orðinn einn stærsti hluthafi Sýnar. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.
Frostaskjól er til helminga í eigu félaganna Reir ehf og Aztiq Fjárfestingar ehf.. Reir er í eigu Hilmars Þórs Kristinssonar og Bernhard Jakob Strickler en Róbert Wessman fer hins vegar með yfirráð yfir Aztiq fjárfestingum,
Frostaskjól keypti 21.150.000 hluti í Sýn í gær en Róbert fer jafnframt með yfirráð yfir BBL 105 ehf., sem á fyrir 2,5 milljónir hluti í Sýn, samkvæmt framvirkum samningi. Eftir viðskiptin eiga félögin samtals 7,64 prósent hlut í Sýn.
Seljandi bréfanna til Frostaskjóls var Res II ehf., en félagið er í eigu Sigurðar Bollasonar og Nönnu Ásgrímsdóttur. Frostaskjól seldi jafnframt hluti í Heimavöllum fyrir um 600 milljónir króna í gær.