Í yfirlýsingu sem Samherji sendi frá sér í kvöld segir að svo virðist sem að Jóhannes Stefánsson, fyrrverandi verkefnastjóri Samherja í landinu, hafi „hugsanlega flækt Samherja í viðskipti sem kunni að vera ólögmæt.“ Það séu mikil vonbrigði að sögn Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra og annars aðaleiganda Samherja.
Í fréttaskýringaþætti Kveiks í kvöld kom meðal annars fram að vísbendingar séu um að greiðslur upp á að minnsta kosti 1,4 milljarða króna frá Samherja til hóps sem inniheldur meðal annars tvo ráðherra í Namibíu, séu mútugreiðslur og að viðskipti fyrirtækisins í Afríkulandinu séu skýr dæmi um spillingu. Umfjöllunin var unnin í samstarfi Kveiks, Stundarinnar, Al Jazeera og Wikileaks.
Í yfirlýsingunni segir að þar til nýlega hafi Samherji ekki haft neina „vitneskju um umfang og eðli þeirra viðskiptahátta sem Jóhannes stundaði og óvíst er hvort þeir hafi verið raunverulega með þeim hætti sem hann lýsir. Eins og við höfum þegar greint frá höfum við ráðið alþjóðlegu lögmannsstofuna Wikborg Rein í Noregi til að rannsaka starfsemina í Namibíu. Í þeirri rannsókn verður ekkert undanskilið og munum við upplýsa um niðurstöður hennar þegar þær liggja fyrir.“ Jóhannes er auk þess sagður hafa misst starf sitt hjá Samherja árið 2016 eftir að hann „misfór með fé og hegðaði sér með óforsvaranlegum hætti“.
Þorsteinn Már segir að stjórnendum Samherja sé illa brugðið. „Ekki einungis við það að Jóhannes staðhæfi að hann hafi tekið þátt í starfsemi af því tagi sem hann lýsir en ekki síður að hann skuli einnig beina ásökunum sínum að fyrrum samstarfsfólki sínu hjá Samherja. Þetta eru ekki vinnubrögð sem við könnumst við.“
Ef rannsókn fari fram á viðskiptunum í Namibíu hafi „Samherji ekkert að fela“.
Jóhannes gegst við því í þættinum að hafa brotið lög fyrir hönd Samherja þegar fyrirtækið náði í umtalsverðan kvóta í Namibíu. Þar kom einnig fram að Jóhannes hefði gefið sig fram við yfirvöld í Namibíu, hefði fengið lagalega stöðu uppljóstrara og aðstoðaði nú við rannsókn þeirra á starfsháttum Samherja.
Jóhannes sagði hins vegar að hann hefði ekki hafa gert neitt í Namibíu nema án aðkomu Þorsteins Más. Þar kallaði hann starfsemi Samherja í Namibíu „skipulagða glæpastarfsemi“ þar sem fyrirtækið græði á auðlindum landsins en hafi svo fært alla peninganna sem það græddi út úr því til að fjárfesta annars staðar í heiminum.
Jóhannes var sérstaklega nefndur á nafn í yfirlýsingu sem Samherji sendi frá sér í gær vegna yfirvofandi umfjöllunar um starfshætti fyrirtækisins og sagt að honum hefði verið sagt upp störfum hjá Samherja árið 2016 vegna „óásættanlegrar framgöngu hans og hegðunar“. Það hafi gerst í kjölfar þess að Samherji hefði orðið „þess áskynja í ársbyrjun 2016 að ekki væri allt með felldu í rekstrinum í Namibíu“ og sent íslenskan fyrrverandi rannsóknarlögreglumann til landsins til að rannsaka málið.
Heimildir Kjarnans herma að Jóhannes hafi rætt við starfsmenn héraðssaksóknara í dag. Í þættinum í kvöld kom einnig fram að Jóhannes hefði gefið sig fram við yfirvöld í Namibíu, hefði fengið lagalega stöðu uppljóstrara og aðstoðaði nú við rannsókn þeirra á starfsháttum Samherja.