Hage Geingob, forseti Namibíu, er sagður vilja reka dómsmálaráðherra og sjávarútvegsráðherra landsins, þá Sacky Shanghala og Bernhardt Esau, úr embættum sínum í kjölfar ásakana um spillingu.
Forsetinn er sagður vera kominn með nóg af ásökunum um spillingu á hendur ráðherrunum tveimur og verði þeir að víkja úr ríkisstjórn.
Helgi Seljan birtir færslu um þetta á Facebook-síðu sinni en hann vann að umfjöllun Kveiks sem birtist í gærkvöldi um meint samskipti Samherja við þá Sacky Shanghala og Bernhardt Esau.
Forseti Namibíu er sagður vilja reka þá félaga Sacky Shanghala, dómsmálaráðherra og samstarfsmann Samherja, og Bernhardt...
Posted by Helgi Seljan on Wednesday, November 13, 2019
Helgi vitnar í færslunni í namibíska götublaðið Namibian Sun en samkvæmt heimildamönnum þeirra sem sagðir eru hátt settir í stjórnkerfi landsins er þetta vilji forsetans. Í umfjöllun blaðsins er fjallað um uppljóstranir í fjölmiðlum um samskipti hátt settra manna við þá sem eru í forsvari fyrir Samherja. Ekki liggur ljóst fyrir hvort forsetinn vilji víkja ráðherrunum tveimur varanlega úr embætti eða tímabundið.