Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, og fjármála- og efnahagsráðherra, Bjarni Benediktsson, tókust á í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag.
Logi sagði að hann óttaðist að Ísland væri að teiknast upp sem spillingarbæli í augum umheimsins. „Skemmst er að minnast að Ísland lenti á gráum lista vegna skeytingarleysis gagnvart peningaþvætti og þar er Ísland á meðal ellefu annarra ríkja og Namibía er ekki meðal þeirra. Þá muna einhverjir eftir Panamaskjölunum þar sem ríkasti hluti þjóðarinnar kom eignum sínum undan til þess að forðast skattgreiðslur sem almenningur þarf að inna af hendi. Loks má minna á 10 ára afmæli Hrunsins þegar gráðugir fjárglæframenn komu landinu næstum því í þrot og allar spillingarflétturnar í kringum það.“
Hann sagði að eitt fyrirtæki væri nú að rústa orðspori Íslendinga ef sakir reynist sannar – þetta væri óboðleg hegðun gagnvart fátækasta fólki í Afríku. Þar vísar hann í svokallað Samherjamál sem hefur verið áberandi í fjölmiðlum síðustu daga síðan Kveiks-þátturinn og umfjöllun Stundarinnar birtist um málið.
Logi spurði Bjarna hvort hann hefði áhyggjur af því að fyrirtæki sem treyst hefði verið til að nýta sameiginlega auðlind þjóðarinnar bregðist því trausti og þeim skyldum með jafn afgerandi hætti og nú væri að teiknast upp og gæti lengt veru Íslendinga á gráa lista FATF.
„Telur hæstvirtur ráðherra að svo mikill auður geti safnast hjá einu fyrirtæki að það geti skapað bæði orðsporsvanda og kerfisáhættu fyrir heila þjóð og haft áhrif á önnur útflutningsfyrirtæki?“ spurði Logi. Að lokum spurði hann ráðherrann hvort hann myndi styðja það að láta aukið fé til héraðssaksóknara og ríkisskattrannsóknarstjóra til að upplýsa þessi mál.
„Engin innistæða fyrir svona dramatískum orðum“
Bjarni svaraði og sagði að honum fyndist það alvarlegt mál þegar formaður stjórnmálaflokks stigi í pontu Alþingis og teldi það rétta lýsingu á Íslandi að því væri líkt við spillingarbæli.
„Ég tel að það sé engin innistæða fyrir svona dramatískum orðum og þessari lýsingu á landinu okkar. Og að það sé algjörlega með ólíkindum í tilefni af því máli sem við ætlum að taka alvarlega og láta viðeigandi stofnanir rannsaka og komast til botn um hvernig málum er háttað í þessu tilviki að þá vil ég miklu frekar færa fram í umræðuna þá sýn á þetta mál að sýn umheimsins á Ísland og sýn okkar Íslendinga hvers konar þjóð við erum – í hvers konar landi við búum – ræðst ekki af einstökum svona málum heldur hvernig við tökum á þeim. Hvort við tökum þeim alvarlega, hvort stjórnvöld bregðast við, hvort við höfum stofnanir til þess að taka á málum – rannsaka, ákæra og dæma þegar það á við – en ekki af einhverjum ótrúlegum útleggingum Samfylkingarfólks sem ég hef fengið að fylgjast með núna síðasta sólarhringinn um að rót alls vanda þessa máls liggi í sjálfu fiskveiðistjórnunarkerfinu sem er mært um allan heim fyrir að færa íslensku þjóðinni umfram verðmæti af nýtingu auðlindar borið saman við aðrar þjóðir. Betri nýtingu á hverjum fiski. Meiri verðmætasköpun fyrir hvern fisk dreginn á land,“ sagði ráðherrann.
Hann sagði að að sjálfsögðu hefði hann áhyggjur af Samherjamálinu. Að sjálfsögðu hefði hann áhyggjur af orðspori Íslendinga sem gæti beðið hnekki vegna þessa máls. „En það ræðst af því hvernig við tökum á málinu hvernig úr því spilast. Og ef eftirlitsstofnanir þurfa aukið fé þá munu þær fá aukið fé.“