Þorsteinn Már Baldvinsson segir að hann vonist til þess að tímabundið brotthvarf sitt úr forstjórastóli muni róa umræðu um fyrirtækið. Þetta kemur fram í viðtali við Þorstein Má á fréttavefnum Vísi.is, en viðtalið var tekið á Dalvík, þar sem hjartað í starfsemi Samherja á Íslandi er.
Björgólfur Jóhannsson hefur tekið við sem forstjóri Samherja, eftir að Þorsteinn Már ákvað að stíga tímabundið til hliðar sem forstjóri.
Samherji á fund með skattrannsóknarstjóra á mánudag, þar sem fara á yfir mál, sem meðal annars var fjallað um í Kveiki og Stundinni. Í þættinum kom fram að Samherji hefði mútað ráðamönnum í Namibíu í skiptum fyrir kvóta, og hafa bæði dómsmálaráðherra og sjávarútvegsráðherra Namibíu sagt af sér.
Í viðtalinu segir Þorsteinn Már að margt sem hafi fram komið í umræðum um fyrirtækið, frá því að umfjöllun starfsemi Samherja í Namibíu kom fram í fréttaskýringarþættinum Kveiki á RÚV, hafi verið rangt, en sagði að innri rannsókn Samherja væri nú hafin og hún myndi leiða í ljós ef eitthvað væri athugavert í starfseminni.
„Mér bara blöskrar orðið umræðan. Samherji er ekki sálarlaust fyrirtæki, það eru meðal annars 800 starfsmenn á Íslandi og annað eins, meira, erlendis. Þessar árásir hér á Íslandi, á starfsfólk og fjölskyldur þeirra, mér finnst þetta orðið full langt gengið og með því að stíga til hliðar er ég að vona að sú umræða geti róast eitthvað,“ sagði Þorsteinn Már meðal annars.
Hann sagði það auk þess ekki rétt að fyrirtækið hefði flutt peninga frá Afríku, og stundað skattsvik eða peningaþvætti. Hann neitaði því alfarið, en játti því að ákveðnar greiðslur þyrfti að skoða. Þá sagði hann að Samherji hefði ekki skellt skuldinni á fyrrverandi starfsmanna Samherja, og uppljóstra Kveiks, Jóhannes Stefánsson. „Við skelltum ekkert allri skuld á Jóhannes, við vorum bara að segja það að við vékum honum úr starfi vegna þess að það voru gerðir hlutir sem við vorum ekki sammála,“ sagði Þorsteinn Már í viðtalinu.
Þá sagðist hann ekki óttast fangelsi, og að starfsemi Samherja hefði verið í takt við lög og reglur.