Björgólfur Jóhannsson, sem tók tímabundið við sem forstjóri Samherja í gær af Þorsteini Má Baldvinssyni, reiknar ekki með því að sitja í stólnum lengi. „Verkefnið er skýrt og ég vona að málin leysist á sem skemmstum tíma þannig að þessi tímabundna ráðning vari ekki mjög lengi.“
Þetta segir Björgólfur í viðtali við Morgunblaðið í dag. Þorsteinn Már steig tímabundið til hliðar í gærmorgun í samkomulagi við stjórn fyrirtækisins vegna yfirstandandi innri rannsóknar á ætluðum brotum dótturfélags í Namibíu. Í yfirlýsingu frá Samherja sagði að ráðstöfunin gildi þar til að niðurstöður þeirrar rannsóknar Samherja á eigin ætluðum brotum liggja fyrir. Rannsóknin, sem er í höndum alþjóðlegu lögmannsstofunnar Wikborg Rein, mun heyra beint undir stjórn félagsins.
Björgólfur segir í viðtalinu að honum finnist ekki ólíklegt að embætti skattrannsóknarstjóra hafi farið yfir þau gögn sem hann geti kallað eftir frá Samherja áður, i fyrri rannsókn sinni á fyrirtækinu. Þar segir hann ennfremur að „öllum sé ljóst að sjónvarpsþáttur Kveiks var mjög einhliða. Það er vilji allra að upplýsa um öll þessi atriði en ýjað var að því að félagið hefði brotið gegn lögum og sýnt slæmt siðferði í viðskiptum. Þegar niðurstöður rannsóknarinnar liggja fyrir geta menn metið þetta en það er ekki hægt á þessu stigi.“
Umfjöllunin á þriðjudag, sem unnin var í samstarfi Kveiks, Stundarinnar, Al Jazeera og Wikileaks sýndi fram á að hópur sem innihélt meðal annars sjávarútvegs- og dómsmálaráðherra Namibíu, hefði fengið 1,4 milljarð króna hið minnsta greiddan frá Samherja á undanförnum árum. Auk þess hafi ráðherra í Angóla fengið greiðslur. Namibísku ráðherrarnir hafa báðir sagt af sér embætti í dag.
Í umfjölluninni kom einnig fram að rökstuddur grunur sé um stórfellda skattasniðgöngu Samherja við að koma ágóðanum af þeim viðskiptum sem fyrirtækið stundaði þar undan og til skattaskjóla. Þá liggur fyrir að norski bankinn DNB, sem er að hluta til í eigu norska ríkisins, stöðvaði viðskipti við félög tengd Samherja á Kýpur og Marshall-eyjum vegna þess að reglur um varnir gegn peningaþvætti voru ekki uppfyllt.
Þau mál eru til skoðunar hjá bankanum sjálfum, norsku efnahagsbrotadeildinni og deildar embættis héraðssaksóknara þar í landi, samkvæmt Stundinni.