Nú standa yfir verkfallsaðferðir félagsmanna Blaðamannafélags Íslands á stærstu vefmiðlum landsins, Vísi, Mbl.is, Fréttablaðinu og RÚV.
Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélagsins, segir í samtali við Kjarnann að almennt hafi aðgerðirnar gengið vel. Þó má nú sjá að Mbl.is hefur birt nokkrar fréttir síðan verkfallið hófst klukkan 10:00 í morgun.
„Þau eru í sömu hjólförum og síðasta föstudag, því miður,“ segir hann og bendir á að Blaðamannafélagið sé búið að stefna Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins, fyrir félagsdóm vegna meintra verkfallsbrota sem framin voru síðastliðinn föstudag þegar verkfallsaðgerðir stóðu þá yfir.
Hjálmar segir enn fremur að birting frétta á vefnum sé staðfesting á einbeittum brotavilja. „Þetta er ömurlegt, að menn virði ekki vinnustöðvun,“ segir hann og bætir því við að slík verkfallsbrot hafi afleiðingar hvað almenning varðar, að virða ekki lög og reglur í landinu.
Formaðurinn tekur það fram að hann viti ekki hverjir séu að vinna núna á vef Mbl.is enda eru fréttirnar sem nú birtast á vefnum ekki merktar höfundi. „Framkvæmdastjórinn má vinna, en ég veit ekki hversu afkastamikill hann er.“
Hann segir að þau í félaginu muni taka stöðuna í lok dags.