„Það viðskiptasiðferði sem Samherjamálið leiðir í ljós verður ekki til í tómarúmi. Það vex ekki út úr illu innræti einstakra persóna. Þetta er lífsviðhorf, stefna, ákveðin sýn á annað fólk – og sig.“
Þetta segir Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar, í stöðuuppfærslu á Facebook-síðu sinni í dag.
Varla hefur farið fram hjá mörgum hér á landi hið svokallaða Samherjamál. Í umfjöllun Kveiks og Stundarinnar í vikunni kom fram að sjávarútvegsfyrirtækið Samherji hefði greitt mútur til að komast yfir kvóta í Namibíu og stundað stórfellda skattasniðgöngu til að hámarka arð sinn af þeim kvóta. Fyrirtækið er auk þess grunað um peningaþvætti í Noregi en afleiðingarnar af þessu eru þegar orðnar margháttaðar.
Guðmundur Andri segir á Facebook að þetta sé siðferði hins ískalda kapítalisma þar sem ungu fólki sé innrætt að líta á annað fólk sem bráð frekar en samborgara og þar sem manngildi sé mælt í fimi við að víkja sér undan sköttum og öðrum skyldum við samfélag.
„Þetta er sú hugmynd að svona sé leikurinn. Þetta er afsiðun kapítalismans. Réttlætingin felst svo í því að láta gott af sér leiða í nærsamfélaginu, á eigin forsendum og sjálfum sér til dýrðar,“ skrifar þingmaðurinn.