Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, segir að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og VG standi frammi fyrir prófraun í ljósi þeirrar taumlausu græðgi og spillingu sem nú hafi komið upp á yfirborðið í Samherjamálinu. Hún segir að flokkurinn verði meðal annars að koma í veg fyrir að samkeppnislögin verði gerð veikari eins og nú standi til að gera. Þetta kemur fram í Facebook-færslu Jóhönnu í dag.
Veita þurfi skattayfirvöldum sérstakt framlag
„Þetta er spurning um hvort VG eða sérhagsmunaflokkarnir tveir ráði ferðinni í ríkisstjórninni,“ segir Jóhanna og telur upp nokkra hluti sem hún segir að VG verði að setja í forgang.
Þar á meðal telur Jóhanna að flokkurinn verði að setja í forgang að lögfesta í stjórnarskrána ákvæði stjórnlagaráðs frá 2012 um sameign þjóðarinnar á auðlindum og hækka auðlindagjaldið sem lækka á um tvo milljarða á næsta ári.
Auk þess telur Jóhanna að veita þurfi skattayfirvöldum sérstakt framlag til að flýta fyrir rannsókn á Samherjamálinu. „Óhjákvæmilegt er einnig að Alþingi setji sérstaka rannsóknarnefnd í málið, skipaða sérfræðingum utan þings, sem hafi það verkefni að fara ofan í saumana á Samherjamálinu, “ segir Jóhanna og bendir að lokum á að grannt verði fylgst með viðbrögðum forsætisráðherra í þessu máli.
Katrín Jakobsdóttir og VG standa frammi fyrir prófraun í ljósi taumlausrar græðgi og spillingar sem nú hefur komið upp á...
Posted by Jóhanna Sigurðardóttir on Saturday, November 16, 2019