Starf útvarpsstjóra RÚV er auglýst laust til umsóknar í dagblöðum í dag. Umsóknarfrestur er til 2. desember. Í auglýsingunni segir að útvarpsstjóri hafi það hlutverk að „framfylgja stefnu Ríkisútvarpsins og gæta hagsmuna þess í hvívetna. Leitað er að öflugum og reyndum leiðtoga til að stýra RÚV inn í nýja tíma miðlunar.“
Hæfnikröfur eru háskólamenntun sem nýtist í starfi, en er ekki er tiltekið hvaða stigi háskólamenntunar umsækjandi þarf að vera búin að ljúka. Þá er gerð krafa um reynslu af stjórnun og rekstri, leiðtogahæfileika og góða hæfni í mannlegum samskiptum, skilning og áhuga á nýjum miðlum og reynslu af stefnumótunarvinnu, nýsköpun og innleiðingu stefnu. Viðkomandi þarf auk þess að vera með þekkingu og reynslu af fjölmiðlum, menningu og samfélagsmálum, þarf að búa yfir góðri tungumálakunnáttu og góðri hæfni til að tjá sig í ræðu og riti.
Þann 1. nóvember síðastliðinn var greint frá því að Magnús Geir Þórðarson, sitjandi útvarpsstjóri, hefði verið skipaður þjóðleikhússtjóri. Hann hafði þá setið í Efstaleiti frá því snemma árs 2014 og stjórn RÚV hafði fyrr á þessu ári ákveðið að framlengja fimm ára ráðningartímabil Magnúsar Geirs um önnur fimm ár.
Útvarpsgjaldið hækkar um 2,5 prósent milli ára samkvæmt fjárlögunum og áætlaðar tekjur Ríkisútvarpsins (RÚV) vegna þeirra aukast um 180 milljónir króna. Áætlað er að útvarpsgjaldið verði 4.770 milljónir króna á næsta ári.
Mennta- og menningarmálaráðherra sagði í ágúst að í undirbúningi væri að RÚV hverfi af auglýsingamarkaði. Ríkismiðlinum verði hins vegar bætt upp það tekjutap en hann hefur haft yfir tvo milljarða króna í slíkar tekjur á undanförnum árum. Ekki liggur fyrir hvernig sú breyting verði útfærð.
Þjónustusamningur RÚV við mennta- og menningarmálaráðuneytið, sem skilgreinir hlutverk, skyldur og umfang RÚV, rennur út í lok þessa árs og viðræður um endurnýjun hans hafa staðið yfir undanfarin misseri.