Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að það sé til skoðunar innan ríkisstjórnarinnar að gera þá kröfu til óskráðra fyrirtæki, sem fari yfir vissa stærð, að þau skili einnig inn upplýsingum ársfjórðungslega líkt og skráðum fyrirtækjum er skylt. Þetta kom fram í svari ráðherra við óundirbúinni fyrirspurn á Alþingi í dag.
Aukið gagnsæi íslenskra stórfyrirtækja
Í svari ráðherra kemur jafnframt fram að Katrín telur að Samherjamálið geti svo sannarlega haft áhrif á íslenskt atvinnulíf og allar íslenskar útflutningsgreinar en ekki aðeins þetta eina fyrirtæki og orðspor þess. Að mati Katrínar er því vert að spyrja að því hvernig hægt sé að gera betur þegar kemur að gagnsæi atvinnulífsins og fyrirtækja.
Hún segir að eitt af því sem sé til skoðunar um þessar mundir hjá ríkisstjórninni sé aukin upplýsingaskylda stórra fyrirtæki. Samkvæmt Katrínu er til skoðunar hvort ekki sé eðlilegt að gera ríkari kröfu til fyrirtækja af tiltekinni stærð, sem ekki eru skráð á markað, um að skila inn upplýsingum ársfjórðungslega líkt og skráð fyrirtæki á hlutabréfamarkaði.
Katrín segir að Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, sé einmitt með mál á sinni þingmálaskrá þar sem breytingar eru boðaðar á þessu.
„Þetta eru hagsmunir íslensk atvinnulífs. Það á að líta á það sem sóknarfæri fyrir sig að hér sé mikið gagnsæi og skýrt regluverk. Líta á það sem sóknarfæri fremur en íþyngjandi,“ segir Katrín.
Erfiðara að meta áhættu vegna óskráðra fyrirtækja
Í nýlegri úttekt Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) á íslensku efnahagslífi, sem birt var þann 11. nóvember síðastliðinn, kemur fram að erfiðara sé að meta áhættu í íslenska efnahagskrefinu vegna ógangsæi í rekstri óskráðra fyrirtækja. Sérstaklega óskráðra fyrirtæki sem geta haft mikið áhrif á allt efnahagskerfi Íslands fari rekstur þeirra illa. AGS vísar þar væntanlega til WOW air en bág fjárhagsstaða þess fyrirtækis varð ekki opinber fyrr en á seinni hluta síðasta árs, þegar reksturinn var þegar kominn í mikið óefni.