Björgólfur Jóhannsson, sem verið hefur stjórnarformaður Sjóvá, tilkynnti á stjórnarfundi í dag um þá ákvörðun sína að víkja tímabundið úr stjórn Sjóvá „vegna anna“. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallar Íslands.
Þar segir enn fremur að Hildur Árnadóttir, stjórnarmaður, muni taka við stjórnarformennsku í stað Björgólfs. Þá mun Erna Gísladóttir, varamaður í stjórn Sjóvá, taka sæti í stjórn félagsins.
Björgólfur var kjörinn í stjórn Sjóvár í mars síðastliðnum og tók þá samstundis við hlutverki stjórnarformanns.
Björgólfur tók tímabundið við sem forstjóri Samherja í lok síðustu viku af Þorsteini Má Baldvinssyni.
Umfjöllunin á þriðjudag í síðustu viku, sem unnin var í samstarfi Kveiks, Stundarinnar, Al Jazeera og Wikileaks sýndi fram á að hópur sem innihélt meðal annars sjávarútvegs- og dómsmálaráðherra Namibíu, hefði fengið 1,4 milljarð króna hið minnsta greiddan frá Samherja á undanförnum árum. Auk þess hafi ráðherra í Angóla fengið greiðslur. Namibísku ráðherrarnir hafa báðir sagt af sér embætti.
Í umfjölluninni kom einnig fram að rökstuddur grunur sé um stórfellda skattasniðgöngu Samherja við að koma ágóðanum af þeim viðskiptum sem fyrirtækið stundaði þar undan og til skattaskjóla. Þá liggur fyrir að norski bankinn DNB, sem er að hluta til í eigu norska ríkisins, stöðvaði viðskipti við félög tengd Samherja á Kýpur og Marshall-eyjum vegna þess að reglur um varnir gegn peningaþvætti voru ekki uppfyllt.
Þau mál eru til skoðunar hjá bankanum sjálfum, norsku efnahagsbrotadeildinni og deildar embættis héraðssaksóknara þar í landi, samkvæmt Stundinni.