Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir að það gangi ekki að ótal spurningum sé ósvarað um viðskipti Samherja og Eyþórs Arnalds, oddvita Sjálfstæðisflokks í borgarstjórn Reykjavíkur. „Það hlýtur að vera lágmarkskrafa að Eyþór Arnalds og Samherji geri hreint fyrir sínum dyrum,“ segir Dagur í Facebook-færslu í dag.
Dagur rekur í færslunni að í dag sé vika frá því að Samherjaskjölin voru birt þar sem sögð hafi verið skýr saga af „ömurlegum viðskiptaháttum og arðráni Samherja í Namibíu“. Hann segir að birting Samherjaskjalanna sýni meint viðskipti Eyþór Arnalds við Samherja um hlut í Morgunblaðinu í alveg nýju ljósi. „Ég segi meint því langflest er á huldu um þessa fjármálagjörninga sem teygja sig alla leið í skattaskjólsfyrirtæki Samherja á Kýpur þaðan sem greiðslur til stjórnmálamanna og milliliða í Namibíu komu,“ skrifar Dagur.
Hann ítrekar jafnframt að þetta mál Eyþórs sé ekki nýtt mál í umræðunni heldur í raun tveggja ára gamalt. Á þeim tíma hafi svörin aftur á móti verið fá og afar misvísandi. Dagur bendir jafnframt á að Eyþór hafi ekki séð ástæðu til þess að geta um eignarhald sitt í Morgunblaðinu eða „margflókin“ viðskipti sín við Samherja í hagsmunaskráningu kjörinna fulltrúa hjá borginni.
„Við megum heldur ekki gleyma því að fjölmiðlar gegna lykilhlutverki í samfélaginu og eru í raun hluti af lýðræðiskerfinu. Þess vegna hefur verið gerð sú krafa að ekkert sé á huldu varðandi eignarhald á þeim,“ segir Dagur og bætir við að í þessu máli standi eftir ótal spurningar.
Þar á meðal hver sé ástæða þess að Eyþór fari með hlut Samherja í Morgunblaðinu ef hann tók enga áhættu af viðskiptunum, líkt og Eyþór hefur sagt. Dagur spyr jafnframt hvort að Eyþór standi enn í skuld við Samherja vegna þessa mál og hvenær hann ætli sér að gera fulla grein fyrir tengslum sínum við útgerðarfyrirtækið.
„Eins og blasir við rekst hvað á annað horn í skýringum sem settar hafa verið fram á viðskiptum Samherja og oddvita Sjálfstæðisflokksins á eignarhlut í Morgunblaðinu. Og ótal spurningum er ósvarað. Það gengur ekki. Það hlýtur að vera lágmarkskrafa að Eyþór Arnalds og Samherji geri hreint fyrir sínum dyrum,“ segir Dagur að lokum.
í dag er vika frá því Samherjaskjölin birtu þjóðinni skýra sögu af ömurlegum viðskiptaháttum og arðráni Samherja í...
Posted by Dagur B. Eggertsson on Tuesday, November 19, 2019