Kara Connect ehf. hefur lokið 160 milljóna króna fjármögnun með aðkomu Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins og tveggja sænskra einkafjárfesta. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.
Kara Connect er stafræn vinnustöð sem gerir sérfræðingum í heilbrigðis,- velferðar- og menntageiranum kleift að veita skjólstæðingum þjónustu og straumlínulaga rekstur sinn.
Í tilkynningunni segir að um sé að ræða aðra fjármögnun félagsins. Fyrir ári síðan hafi Crowberry Capital fjárfest í Kara Connect sem hafi gert teyminu kleift að einbeita sér að þróun hugbúnaðarins með öryggismál að leiðarljósi. „Kara er eini íslenski hugbúnaðurinn fyrir sérfræðinga sem er samþykktur af Landlæknisembættinu þegar litið er til gagnavistunar og fjarfundasamskipta við skjólstæðinga.“
Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins kemur nú inn sem nýr fjárfestir og eignast 10 prósent hlut í félaginu. Allir fyrrum fjárfestar taka einnig þátt og auk þess bætast við nýir sænskir fjárfestar, félögin Poleved Industrial Performance AB og Skogsliden Finance AB.
700 sérfræðingar nýta sér Köru
Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, framkvæmdastjóri og stofnandi Kara Connect, segir við tilefnið að fjármögnun með aðkomu þessara sterku fjárfesta skipti miklu máli fyrir félagið og gefi frábæru teymi tækifæri til að stækka, sérstaklega í sölu- og markaðsmálum, samhliða vexti í Danmörku. „Íslenski markaðurinn hefur tekið hratt við sér og mörg spennandi og framsýn verkefni grundvölluð á kerfi Köru verða brátt sýnileg.“
Í tilkynningunni kemur enn fremur fram að hátt í 700 sérfræðingar nýti sér Köru fyrir bakvinnslu, greiðslur og öryggismál, og samtímis stórauki Kara aðgengi skjólstæðinga að sérþekkingu þeirra. Sérfræðingar nýti Köru til að skrá og byggja yfirlit um hefðbundna fundi, fjarfundi og spjallfundi. Tugþúsundir fjarfunda hafi farið fram nú þegar og hafi heildarfjöldi notenda meira en tvöfaldast frá áramótum og telur nú yfir 4.300.