Héraðssaksóknari hefur ákært fyrrverandi þjónustustjóra Isavia fyrir mútuþægni og umboðssvik, en framkvæmdastjóri fyrirtækis sem seldi Isavia miða er einnig ákærður. Hagnaður þess síðarnefnda er sagður vera um 4,5 milljónir króna en mútugreiðslurnar námu 3,5 milljónum.
Greint var frá málinu á vef RÚV.
Isavia krefst um 12 milljóna í skaðabætur, vegna málsins.
Í ákæru héraðssaksóknara, sem RÚV vitnar til, kemur meðal annars fram að Isavia hafi ákveðið að hætta viðskiptum við norskt félag um kaup á bílastæðamiðum og beint í staðinn viðskiptum sínum til hins íslenska tæknifyrirtækis.
Það hafi gerst að frumkvæði þjónustustjórans, hins ákærða, sem hafði umsjón með bílastæðum Isavia við Keflavíkurflugvöll. Þess er sérstaklega getið að verð íslenska fyrirtækisins hafi verið miklu hærra en Isavia greiddi norska fyrirtækinu.
Saksóknari segir að þegar Isavia keypti 760 þúsund aðgangsmiða í júní 2015 hafi þjónustustjórinn í krafti stöðu sinnar séð til þess „að Isavia borgaði óeðlilega hátt verð“ eins og segir í umfjöllun RÚV.