Stjórnarformaður Símans, hollenski fjárfestirinn Bertrand Kan sem setið hefur í stjórn félagsins frá vorinu 2016, var felldur í stjórnarkjöri sem fram fór í dag.
Alls voru sex í framboði til stjórnar og var hann sá eini þeirra sem náði ekki kjöri. Þau fimm sem kjörin voru í stjórn eru Jón Sigurðsson, stjórnarformaður Stoða sem er stærsti einstaki eigandi Símans, Kolbeinn Árnason, lögmaður og eigandi Dranga lögmanna, Sylvía Kristín Ólafsdóttir, forstöðumaður rekstrarsviðs Icelandair, Bjarni Þorvarðarson, forstjóri lyfjaframleiðandans Coripharma í Hafnarfirði.
Jón hefur verið kjörinn formaður stjórnar og Helga verður varaformaður hennar.
Hagnaður Símans á þriðja ársfjórðungi var rúmlega 897 milljónir króna og dróst saman úr 978 milljónum króna í fyrra. Rekstrarhagnaður félagsins var 2,8 milljarðar króna og hækkaði um 210 milljónir króna frá sama tímabili 2017.
Eiginfjárhlutfall Símans í lok þess ársfjórðungs, sem lauk í lok september, var 55,4 prósent og eigið fé fjarskiptarisans var 36,3 milljarðar króna.
Góður tekjuvöxtur var í sjónvarpsrekstri milli ára, eða um 20 prósent. Á þriðja ársfjórðungi í fyrra voru tekjur Símans af sjónvarsrekstri 1.190 milljónir króna er voru nú 1.423 milljónir króna. Þessi tekjuaukning dró vagninn fyrir Símann á síðasta ársfjórðungi.
Orðið umsvifamikið á skömmum tíma
Stoðir er á skömmum tíma orðinn umsvifamesti einkafjárfestirinn hérlendis. Félagið hét áður FL Group og var meðal annars stærsti eigandi Glitnis banka fyrir hrun.
Félagið fór í greiðslustöðvun þegar sá banki fór á hausinn og kröfuhafar þess tóku það yfir. Vorið 2017 keyptu svo félög, í eigu stórra hluthafa í TM sem voru margir hverjir lykilmenn í FL Group á árunum fyrir hrun, ráðandi hlut í Stoðum.
Mikið eigið fé til að fjárfesta með
Eigið fé Stoða var 23,2 milljarðar króna í lok júní síðastliðins. Hluthafar Stoða eru 54 talsins. Stærstu hluthafarnir eru S121 ehf. (64,5 prósent), Landsbankinn og sjóðir í stýringu Stefnis, sjóðstýringafyrirtækis Arion banka.
Stærstu endanlegu eigendur S121 hafa margir tengsl við gamla FL Group, annað hvort störfuðu þar eða sátu í stjórn. Má þar nefna félög tengd Magnúsi Ármann, sem var hluthafi í FL Group og sat í stjórn félagsins, Örvari Kjærnested, sem var yfir starfsemi FL Group London fyrir hrun, og Bernhard Bogasyni, fyrrverandi framkvæmdastjóri lögfræðisviðs FL Group. Þá á Einar Örn Ólafsson, fyrrverandi forstjóri Skeljungs, líka stóran hlut.
Auk þess á eiginkona Jóns, núverandi stjórnarformanns Stoða og nú stjórnarmanns í Símanum, og fjölskylda hennar stóran hlut. Með Jóni í stjórninni sitja Sigurjón Pálsson og Örvar Kjærnested. Framkvæmdastjóri félagsins er Júlíus Þorfinnsson.
Helstu eignir Stoða eru 4,96 prósent hlutur í Arion banka, 14,05 prósent hlutur í Símanum og 9,97 prósent hlutur í tryggingafélaginu TM. Stoðir eru stærsti einstaki eigandinn í bæði Símanum og TM, og langstærsti íslenski einkafjárfestirinn í Arion banka. Örvar og Einar Örn sitja báðir í stjórn TM.