Hagnaður Gildis af hlutabréfum í Marel var 9,1 milljarður króna á fyrstu tíu mánuðum ársins. Hagnaður lífeyrissjóðsins af hlutabréfaeign hans í Össuri var 7,8 milljarðar króna. Ekkert annað félag hefur skilað Gildi yfir milljarði í hagnað á árinu, þótt Síminn, með um 900 milljónir króna, komist nálægt því.
Samanlagður hagnaður Gildis af annarri innlendri hlutabréfaeign var þvert á móti neikvæður. Mest var tapið vegna hlutabréfa í Icelandair (1,1 milljarður króna) og í Eimskip (1,2 milljarðar króna).
Þetta kom fram i kynningu Árna Guðmundssonar, framkvæmdastjóra Gildis, á fundi sjóðsfélaga og fulltrúaráðs lífeyrissjóðsins sem fram fór á miðvikudag.
Stærstu eignaflokkar Gildis eru hlutabréf. Þannig voru 27 prósent af eignum samtryggingardeildar sjóðsins í erlendum hlutabréfum um síðustu mánaðamót en 18,7 prósent í innlendum. Árni fór yfir hver ávöxtun þeirra hlutabréfa hefði verið á árinu í kynningunni á fundinum.
Þar kom í ljós að Marel (62 prósent ávöxtun) og Marel (58 prósent) skáru sig verulega úr. Þriðja besta ávöxtunin var í bréfum í Símanum (28 prósent).
Veruleg neikvæð ávöxtun var á sumum félögum sem Gildi hefur fjárfest í. Þar er Sýn (neikvæð ávöxtun upp á 37 prósent) og Icelandair (neikvæð ávöxtun um 30 prósent) í sérflokki það sem af er ári.
Gildi er með langt mest undir í fjárfestingum sínum í Marel og Össur, en samanlagt virði þeirra hluta sem sjóðurinn á í þeim tveimur félögum nemur 41,1 milljarði króna. Það er um 42 prósent af öllu virði innlenda hlutabréfasafns sjóðsins. Ef eign Gildis í Arion banka, sem er metin á 12,2 milljarða króna, er bætt við mynda hlutabréf í þessum þremur félögum 54 prósent af innlenda hlutabréfasafni Gildis. Alls nemur hreinn hagnaður Gildis af hlutabréfum í íslenskum félögum 16 milljörðum króna. Ef hagnaður sjóðsins af bréfum í Marel og Össur er undanskilin, en hann hefur samtals verið 16,9 milljarðar króna á fyrstu tíu mánuðum ársins, þá er tap á eign Gildis í hinum 16 skráðu félögunum sem sjóðurinn á bréf í.