Félagið K2B fjárfestingar ehf., sem var þriðji stærsti eigandi tryggingafélagsins VÍS með 7,25 prósent hlut, hefur selt allt hlutafé sitt í félaginu fyrir tæplega 1,6 milljarð króna. Eigandi félagsins er Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir og Guðmundur Örn Þórðarson.
Svanhildur Nanna hefur setið í stjórn VÍS og var um tíma stjórnarformaður félagsins, en vék úr því sæti í fyrra þegar greint var frá því að hjónin væru til rannsóknar hjá embætti héraðssaksóknara fyrir meint umboðssvik, meint skattsvik, möguleg mútubrot og brot á lögum um peningaþvætti þegar olíufélagið Skeljungur og tengd félög voru keypt og seld á árunum 2008 til 2013. Við brotunum getur legið allt að sex ára fangelsisvist.
Samkvæmt heimildum Kjarnans er það mál enn í rannsókn þótt hún sé langt komin. Því má búast við því að ákvörðun um hvort að gefin verði út ákæra í málinu verði tekin í nánustu framtíð.
Auglýsing
Eignir K2B fjárfestinga voru alls tæplega 3,7 milljarðar króna um síðustu áramót. Langtímaskuldir þess voru engar og eigið fé því sama upphæð.