Aflétting fjármagnshafta hér á landi samhliða mun öflugri íslenskum þýðingum á rafrænum þýðingarvélum hefur laðað fleiri netsvindlara til landsins. Auk þess hefur íslenska þjóðin ekki þróað með sér sömu varhygð gagnvart netglæpum og önnur vestræn ríki. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í grein AP fréttastofunnar sem birt er á vef New York Times.
Netglæpir færst mjög hratt í vöxt
Í greininni er fjallað um þá miklu aukningu sem hefur orðið í netglæpum hér á landi á síðustu árum. Hvernig allt frá stórum fyrirtækjum niður í félagasamtök hafi orðið fyrir barðinu á svokölluðum „forstjórasvikum“. Það er þegar tölvuþrjótar hafa kynnt sér vel skipurit fyrirtækja og þykjast vera háttsettur stjórnandi innan fyrirtækisins eða þekktur viðskiptavinur og sækist eftir skjótum millifærslum í gegnum tölvupóst.
Meðal annars er greint frá því þegar tölvuþrjótum tókst að svíkja rúmlega 400 milljónir króna af HS Orku í fyrra og þegar starfsmaður Aftureldingar var gabbaður til að millifæra nokkur hundrað þúsund krónur vegna tölvupósts sem virtist koma frá formanni deildarinnar.
Haft er eftir Landsbankanum í greininni að það sem af er ári hafi sexfalt fleiri netsvindl verið tilkynnt en í fyrra.
Erlendir svindlarar að bíða eftir þessum degi
Þessi aukning í netsvikum hér á landi er meðal annars rekin til rafrænna þýðingarvéla. Í greininni segir að slíkar vélar séu orðnar mun betri í að þýða hið flókna tungumál Íslendinga. Talið er að íslenskar þýðingar í slíkum vélum hafi í raun ekki orðið nógu góðar fyrr en árið 2018. Svikapóstarnir séu enn þeir sömu en að íslenskan í þeim sé orðin mun betri og það plati marga Íslendinga.
Samtímis þessum framförum í íslenskri þýðingu þá voru íslensk stjórnvöld að aflétta fjármagnshöftum og því mögulegt að millifæra hærri upphæðir úr landi. Haft er eftir íslensku lögreglunni í greininni að það hefði verið líkt og erlendir svikahrappar væru að bíða eftir þessum degi.
Mikið félagslegt traust á Íslandi
Morten Tandle, framkvæmdastjóri Nordic Financial Cert sem er samstarfsvettvangur norræna fjármálafyrirtækj þar sem barist er gegn netglæpum, segir í samtali við AP að lærdómskúrfan í þessum málum hafi verið brött fyrir Íslendinga.
Tandle segir að flest fólk læri að vera varkárt á netinu vegna þess að einhver sem þau þekki hafi orðið fyrir netárás eða lent í svindli á netinu. Hann segir að töluverð einangrun Íslands frá slíkum árásum hafi gert þessa skyndilegum aukningu í árásum á síðustu árum mun erfiðari fyrir land og þjóð.
Enn fremur er fjallað um í greininni hversu hátt félagslegt traust mælist hér á landi, það er að fólk treysti almennt hvert öðru og að félagslegt öryggi sé meira en víða. Haft er eftir Gunnari Helga Kristinssyni, prófessor við félagsvísindadeild Háskóla Íslands, að félagslegt traust sé eftirsóttur eiginleiki í öllum samfélögum. „Það gerir hagkerfið öflugra, lýðræðið sterkara og fólk hamingjusamara og heilbrigðara. Í fræðiritum er aldrei neitt slæmt tengt heilbrigðu trausti,“ segir Gunnar Helgi.
Í greininni segir að svikahrappar nýta sér þetta traust og eru Íslendingar hvattir til að vera varkárari á netinu. Jafnframt er haft eftir sérfræðingum í netglæpum að þumalputtareglan sé að svara alltaf fjárhagslegum fyrirspurnum eða skipunum í gegnum annan miðil, eins og til dæmis að svara tölvupósti með símtali