Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra, segir að það trufli hann ekki persónulega að einhverjir hafi hagnast á kvótakerfinu. Það sé miklu betri staða en áður þegar menn hafi tapað á sjávarútvegi. Þetta kom fram í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun þar sem Bjarni var til viðtals ásamt Loga Einarssyni, formanni Samfylkingarinnar.
Þar sagði Bjarni að kvótakerfið hefði verið búið til með það fyrir augum að allir myndu njóta góðs af því. Þegar því var komið á hefðu miklir rekstrarerfiðleikar plagað greinina og sveitarstjórnir sem höfðu fengið úthlutað kvóta vildu losa um þá stöðu. „Megintilgangur kvótakerfisins hefur gengið eftir og gengið frábærlega[...]Það truflar mig persónulega ekki að einhverjir hafi hagnast á þessari vegferð. Miklu betra en áður þegar menn voru að tapa.“
Þetta er aðeins annar tónn en var í ræðu Sigurðar Inga Jóhannssonar, formanns Framsóknarflokksins og samstarfsmanns Bjarna í ríkisstjórn, á miðstjórnarfundi flokksins í gær. Þar sagði Sigurður Ingi: „Kvótakerfið var ekki búið til svo nokkrir einstaklingar gætu orðið ofurríkir. Það var ekki búið til svo þeir fjármunir sem urðu til við aukna verðmætasköpun færu á flakk milli reikninga á aflandseyjum. Það var búið til svo Íslendingar allir gætu notið hagsbóta af öflugum íslenskum sjávarútvegi.“
Hagur sjávarútvegs vænkast um tæpa 450 milljarða
Kjarninn greindi frá því í lok september að íslensk sjávarútvegsfyrirtæki hafi átt eigið fé upp á 276 milljarða króna um síðustu áramót. Frá hruni og til loka árs 2018 hafði eiginfjárstaða sjávarútvegsfyrirtækjanna batnað um 355 milljarða króna.
Alls greiddu fyrirtækin sér arð upp á 12,3 milljarða króna í fyrra. Frá árinu 2010 hafa þau greitt 92,5 milljarða króna til eigenda sinna í arðgreiðslur.
Samanlagt hefur hagur sjávarútvegarins, því vænkast um 447,5 milljarða króna frá árinu 2008 og út síðasta ár, eða á einum áratug.
Samherja-samstæðan ,sem er stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins og samanstendur af tveimur félögum, átti ein og sér uppgefið eigið fé upp á 110,7 milljarða króna í lok síðasta árs. Hagnaður Samherja vegna ársins 2018 nam samtals um 11,9 milljörðum króna. Hagnaður Samherjasamstæðunnar hefur þar með numið yfir 112 milljörðum króna á átta árum, frá árinu 2011 og fram til loka síðasta árs. Hagnaðurinn dróst lítillega saman milli áranna 2017 og 2018, en hann var 14,4 milljarðar króna á fyrra árinu.
Verðum að hafa skoðun á kvótaþaki
Bjarni ræddi líka kvótaþak í þættinum í morgun og sagði að ef veiðiheimildir væru að safnast á of fárra hendur þá sé það eitthvað sem „við verðum að hafa skoðun á og það eru viðmið í lögum sem setja þök á þetta og þau hafa dugað vel til að takmarka söfnun.“
Samkvæmt lögum má enginn einn aðili, eða tengdir aðilar, halda á meira en 12 prósent af úthlutuðum veiðiheimildum. Áhöld eru um hvort að verið sé að flokka tengda aðila með réttum hætti og umræður hafa aftur sprottið upp um það undanfarið vegna Samherjamálsins.
Ástæðan er sú að ef Samherji og Síldarvinnslan væru flokkaðir sem tengdir aðilar væru þeir komnir langt yfir það 12 prósent kvótahámarkið Samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða teljast aðilar tengdir ef „annar aðilinn, einstaklingur eða lögaðili, á beint eða óbeint meiri hluta hlutafjár eða stofnfjár í hinum aðilanum eða fer með meiri hluta atkvæðisréttar.“
Samanlagt er aflahlutdeild þessara aðila er því rúmlega 16,6 prósent, eða langt yfir lögbundnu hámarki, sem var sett til að koma í veg fyrir að of mikið af aflaheimildum myndi safnast á fárra hendur.
Fleiri halda á miklu
Samherjasamstæðan er ekki sú eina sem liggur undir grun um að vera komin vel yfir 12 prósent aflahlutdeildarmarkið. Raunar liggur fyrir, líkt og Kjarninn greindi frá á mánudag, að Brim fór yfir það hámark fyrr í nóvember þegar stjórn þess samþykkti samninga um kaup á tveimur sjávarútvegsfyrirtækjum í Hafnarfirði, Fiskvinnslunni Kambi og Grábrók. Samanlagt kaupverð nemur rúmlega þremur milljörðum króna.
Stærsti eigandi Brim er Útgerðarfélag Reykjavíkur, sem á allt að 56 prósent hlut í því félagi. Það félag var 1. september síðastliðinn með 3,9 prósent af öllum úthlutuðum kvóta. Auk þess var félagið Ögurvík með 1,3 prósent aflahlutdeild. Stærstu einstöku eigendur þess eru Guðmundur Kristjánsson, aðaleigandi Útgerðarfélags Reykjavíkur og forstjóri Brims, og tvö systkini hans með samanlagðan 36,66 prósent endanlegan eignarhlut.
Samanlagður kvóti þessara þriggja félaga, sem eru ekki skilgreind sem tengd, var því 15,6 prósent í byrjun september síðastliðins, og hið minnsta rúmlega 17 prósent eins og er.
Aðrir hópar eru líka stórir. Kaupfélag Skagfirðinga á til dæmis FISK Seafood, sem heldur á 5,3 prósent heildarkvótans. FISK á 32,9 prósent í Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum sem er með fimm prósent heildaraflahlutdeild. Þá eignaðist FISK allt hlutafé í Soffanías Cecilsson hf. síðla árs 2017, en það fyrirtæki heldur á um 0,3 prósent kvótans. Samtals nemur heildarkvóti þessara þriggja aðila 10,6 prósent.
Vísi og Þorbirni í Grindavík halda síðan samanlagt á 8,4 prósent af heildarkvótanum. Þau fyrirtæki eru nú í sameigingarviðræðum. Samanlagt eru þessar fjórar blokkir því með vel yfir helming alls úthlutaðs kvóta, eða tæplega 53 prósent hið minnsta.