Svein Harald Øygard, fyrrverandi seðlabankastjóri Íslands, segir að þeir starfsmenn og stjórnendur Seðlabanka Íslands sem staðið hafi að rannsókn á hendur Samherja á sínum tíma hafi staðið upp og barist fyrir því sem þeir töldu rétt. „Ég er ekki að segja að það hafi ekki verið gerð mistök og sú sakamálarannsókn sem stendur yfir í Namibíu, Noregi og Íslandi þarf að verða til lykta leidd áður en það er hægt að álykta um möguleg brot ákveðinna fyrirtækja eða einstaklinga. En því miður er það skýrt í dag að einhverjir hafa ástæðu til að skammast sín.“
Þetta kemur fram í stöðuuppfærslu sem hann birti á Facebook um helgina á ensku.
"You couldn´t have made this shit up". That was a comment I heard from many as I did my research for my book; "In the...
Posted by Svein Harald Øygard on Saturday, November 23, 2019
"You couldn´t have made this shit up". That was a comment I heard from many as I did my research for my book; "In the...
Posted by Svein Harald Øygard on Saturday, November 23, 2019
Að mati Øygard eru það ekki þeir einstaklingar sem prýði forsíðu bókar Björns Jóns Bragasonar sagnfræðings, „Gjaldeyriseftirlitið – Vald án eftirlits?“, sem gefin var út árið 2016 og fjallar með gagnrýnum hætti um rannsókn Seðlabanka Íslands á Samherja, sem þurfa að skammast sín. Á forsíðunni má sjá mynd af Ingibjörgu Guðbjartsdóttur, fyrrverandi framkvæmdastjóra gjaldeyriseftirlitsins, Má Guðmundssyni, fyrrverandi seðlabankastjóra, og Arnóri Sighvatssyni, fyrrverandi aðstoðarseðlabankastjóra. Øygard birtir svo mynd af enskri útgáfu bókarinnar, sem ber heitið „The Capital Controls Surveilance Unit – Out of Control“.
Töldu Samherja ekki vera að skila gjaldeyri til Íslands
Síðla árs 2008 voru sett á fjármagnshöft á Íslandi. Tilgangur þeirra var að bæta gjaldeyrisjöfnuð landsins. Það var gert með tvennum hætti. Í fyrsta lagi hindruðu höftin þá sem áttu íslenskar krónur í að skipta þeim í aðra gjaldmiðla nema með leyfi Seðlabanka Íslands. Í öðru lagi fólst í höftunum skilaskylda allra íslenskra fyrirtækja sem höfðu tekjur í erlendum myntum. Þ.e. þeim bar að afhenda Seðlabankanum gjaldeyristekjur sínar og fá krónur í staðinn.
Rannsókn Seðlabanka Íslands á Samherja, sem hófst árið 2012, kom til vegna þess að bankinn taldi Samherja hafa brotið gegn gjaldeyrislögum með því að skila ekki hingað til lands hagnaði og sköttum sem urðu til alþjóðlega þar sem að yfirstjórn allra erlendra félaga í Samherjasamstæðunni væri hér á Íslandi. Samherji neitaði þessu ætið og sagði erlendu félögin ekki lúta íslenskri yfirstjórn.
Í gögnum sem Samherji lagði fram í málarekstri sínum gegn Seðlabanka Íslands á sínum tíma kemur fram að Øygard hafi fundaði með forsvarsmönnum Samherja í júlí 2009 sem seðlabankastjóri þar sem bankinn gerði athugasemdir við gjaldeyrisskil Samherja. Sá fundur hafði þó ekki beina eftirmála og lögmaður Samherja segir í sömu gögnum að athugunin hafi byggt á misskilningi.
Átti að þagga niður í andstæðingum
Í stöðuuppfærslunni bendir Øygard á að Seðlabanki Íslands hafi á árinu 2010 hafið vinnu við að rannsaka slíka Kýpur-strúktúra og milliverðlagningarsamkomulög. Árið 2012 hafi bankinn svo framkvæmt húsleit á ýmsum skrifstofum Samherja, sem hafi hafnað málatilbúnaði Seðlabankans. Hæstiréttur Íslands hafi síðar tekið undir rök Samherja í málinu. „Samherji hóf líka að elta Seðlabankann. Sumir myndu segja að áreita hann.“ Það hafi átt að þagga niður í andstæðingum fyrirtækisins, og í ljósi þess sem nú hafi komið fram, hafi verið góðar ástæður fyrir þeirri vegferð Samherja.
Samherji hafi beðið bankaráð Seðlabanka Íslands um að grípa til aðgerða gegn stjórnendum bankans. Það hafi bankaráðið gert, þar sem Samherji sé tengdur sterkustu pólitísku öflum á Íslandi. Meira að segja núverandi forsætisráðherra Íslands, Katrín Jakobsdóttir, hafi tengst málinu með þeim afleiðingum að nú sé fyrrverandi starfsmaður bankans til rannsóknar lögreglu. Þar vísar Øygard til þess að Katrín vísaði máli vegna ætlaðs upplýsingaleka frá Seðlabanka Íslands til RÚV í aðdraganda húsleitar hjá Samherja árið 2012 til lögreglu fyrr á þessu ári.
Øygard segir svo að íslenskur sagnfræðingur hafi skrifaði 244 blaðsíðna bók um hinar meintu misgjörðir Seðlabanka Íslands gegn Samherja, án þess að minnast varla á ástæður þess að sett voru fjármagnshöft á Íslandi. Þar á hann við bók Björns Jóns Bragasonar sagnfræðings, „Gjaldeyriseftirlitið – Vald án eftirlits?“, sem gefin var út árið 2016. Á ensku heitir bókin „The Capital Controls Surveilance Unit – Out of Control“ og Øygard segir að stjórnendur Seðlabankans sem eru á forsíðu hennar geti nú borið titil hennar stolti. „Handfylli fólks í Seðlabankanum, þau sem eru á forsíðu bókarinnar, leyfði sér ekki að að lúta stýringu. Þau stóðu upp og börðust fyrir því sem þau töldu að væri rétt.“
Allir þræðir í hendi forstjórans
Í bókinni „Ekkert að fela – Á slóð Samherja í Afríku“, eftir Helga Seljan, Aðalstein Kjartansson og Stéfán Aðalstein Drengsson, er fjallað ítarlega um sögu og umsvif sjávarútvegsrisans Samherja, sem var nýverið afhjúpaður í Kveiksþætti sama teymis.
Þar er meðal annars fjallað um úttekt sem sérfræðingar á vegum KPMG í Hollandi unnu á starfsemi Samherja í janúar 2014. Tilgangur skýrslu sérfræðingana frá Hollandi var að gefa yfirlit af starfsemi Samherja, og ekki síst „flókið innanhúss hagkerfi stórfyrirtækis sem starfar víða um heim,“eins og orðrétt segir í bókinni.
Það var mat sérfræðingana að í grundvallar atriðum væri skipurit félagsins einfalt: Þorsteinn Már ræður.
„Forstjórinn er eini framkvæmdastjóri Samherja,“ sagði í skýrslu KPMG. „Engin formleg framkvæmdastjórn er innan Samherja hf.“ Í skýrslunni var einnig að finna aðrar upplýsingar sem vekja óneitanlega athygli: „Aðrir lykilstjórnendur, sem ekki eru starfsmenn Samherja beint, en stýra mismunandi sviðum innan Samherjasamstæðunnar, eru í beinu sambandi við forstjóra Samherja daglega. Forstjóri Samherja er lykilmaður í öllum viðskiptum fyrirtækisins og hefur bein afskipti af skipulagi veiða.“