Heildarnotkun sýklalyfja hjá mönnum minnkaði um 5 prósent í fyrra samanborið við 2017 og um tæp 7 prósent hjá börnum. Sýklalyfjanotkun hjá dýrum jókst hins vegar um tæp 7 prósent á árinu 2018 miðað við árið á undan en er áfram ein sú minnsta í allri Evrópu. Þetta kemur fram í ársskýrslu Sóttvarnarlæknis um sýklalyfjanotkun á Íslandi.
Helsta heilbrigðisógn mannkynsins
Alþjóðaheilbrigðismálastofnun hefur lýst sýklalyfjaónæmi sem eina helstu heilbrigðisógn sem steðjar að mannkyninu í dag. Eftirlit með sýklalyfjanotkun hjá mönnum og dýrum og bætt notkun lyfjanna gegnir lykilhlutverki í baráttu gegn sýklalyfjaónæmi.
Sýklalyfjanotkun hefur aukist hér á landi á undanförnum árum og verið sú hæsta á Norðurlöndunum en um miðbik ef miðað er við lönd Evrópusambandsins. Hins vegar dróst fjöldi sýklalyfjaávísana saman um 5 prósent hér á landi fyrra. Þá minnkaði sýklalyfjanotkun hjá börnum enn meira eða um tæp 7 prósent en stóð í stað hjá eldri einstaklingum.
Sýklalyfjanotkun dýra eykst
Sýklalyfjanotkun hjá dýrum jókst aftur á móti á milli ára. Ekki er hins vegar hægt að greina notkunina niður á ákveðnar dýrategundir en með nýrri rafrænni skráningu dýrasjúkdóma og meðhöndlun dýra með lyfseðilsskyldum lyfjum má vænta að á næstu árum verði hægt að fá gögn um notkun sýklalyfja greind að einhverju leyti niður á dýrategundir.
Í skýrslunni segir að heildarsala sýklalyfja fyrir dýr minnkaði nokkuð á tímabilinu 2013 til 2016 hvað magn varðar en jókst svo aftur á árunum 2017 og 2018, eða um 11 prósent. Vert er þó taka fram að þetta eru sölutölur og eru ekki teknar með í reikninginn breytingar á stærð búfjárstofna sem getur haft áhrif á magntölur sýklalyfja handa dýrum.
Líkt og fyrri ár var notkun sýklalyfja í dýrum á árinu 2017 minnst á Íslandi mælt í tonnum. Auk þess skar Ísland sig út ásamt Noregi þegar noktun sýklalyfja er mælt í mg/PCU.
Ánægjulegt að árangur hafi náðst
„Á undanförnum árum hefur verið rekinn mikill áróður fyrir skynsamlegri notkun sýklalyfja hjá mönnum hér á landi og hefur verið lögð áhersla á að fækka ávísunum almennt, sérstaklega hjá börnum og minnka notkun breiðvirkra sýklalyfja. Tilgangurinn er að minnka kostnað og draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería. Það er því ánægjulegt að sjá, að notkunin hér á landi hjá mönnum hefur minnkað, sérstaklega hjá börnum og jafnframt að nokkur árangur hefur náðst í að minnka notkunina á breiðvirkum sýklalyfjum,“ segir í skýrslunni
Í maí 2019 sendi ríkisstjórnin frá sér yfirlýsingu þess efnis að Ísland ætlaði sér að vera í fararbroddi í baráttunni gegn útbreiðslu sýklalyfjaónæmis og myndi sú barátta byggja á tillögum starfshóps frá 2017. Sóttvarnarlæknir segir gleðilegt að sjá þann áhuga og vilja sem yfirvöld sýna þessum málaflokki.
„Því samhentar aðgerðir yfirvalda, stofnana, vísindamanna og almennings eru nauðsynlegar til að ná árangri í baráttunni við útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería,“ segir sóttvarnarlæknir.