Nákvæm kortlagning vísindamanna við Háskólann í Leeds á óbyggðum víðernum Ófeigsfjarðarheiðar sýnir að mannvirki Hvalárvirkjunar myndu rýra víðernin um 45 til 48,5 prósent. Þetta kemur fram í tilkynningu frá náttúruverndarsamtökunum ÓFEIGU í dag.
Samtökin fengu rannsóknarsetrið Wildland Research Institute (WRi) við Háskólann í Leeds til að ráðast í kortlagninguna síðastliðið sumar. WRi hefur þróað nákvæmar stafrænar aðferðir til að kortleggja og skilgreina víðerni, mun nákvæmari en beitt hefur verið víðast hvar, samkvæmt ÓFEIGU.
Dr. Stephen Carver og Oliver Kenyon hjá WRi kynntu niðurstöðu rannsóknarinnar á fundi samtakanna í dag. Fram kom hjá þeim að kortlagning víðernanna byggðist á greiningu á stafrænum þrívíðum landupplýsingagögnum, landnotkun, fjarlægð frá mannvirkjum og aðgangsstöðum vélknúinna farartækja.
„Gögnin eru notuð til að greina með mikilli nákvæmni sýnileika mannvirkja sem geta haft áhrif á víðernaupplifun. WRi hefur þróað forrit til þessarar greiningar sem byggir á svipuðum aðferðum og forrit tölvuleikja,“ segir í tilkynningu samtakanna.
Markmið kortlagningar WRi er að meta heildaráhrif fyrirhugaðrar Hvalárvirkjunar á víðernaupplifun á Ófeigsfjarðarheiði og nágrenni. Samkvæmt ÓFEIGU er með Hvalárvirkjun fyrirséð að mannvirki muni skerða þessa upplifun og hafi því verið ákveðið að fá WRi til að kortleggja víðernin og greina áhrif virkjunarinnar.
Hvalárvirkjun hefði verulega neikvæð áhrif á heildstæða víðernaupplifun
„Skerðing víðerna af völdum Hvalárvirkjunar felst í aðkomuvegum fyrir þungavinnuvélar, öðrum nýjum vegum, stíflum, yfirföllum, lónstæðum, skurðum, raflínum og stöðvarhúsi. Enn fremur minnkandi rennsli í Rjúkandi, Hvalá og Eyvindarfjarðará ásamt samsvarandi áhrifum á fossa á svæðinu. Áhrifin á fossana eru hins vegar ekki tekin með í mælingum WRi,“ segir í tilkynningunni.
Þá taki niðurstaða greiningarinnar af öll tvímæli um að áform um Hvalárvirkjun hafi verulega neikvæð áhrif á heildstæða víðernaupplifun Ófeigsfjarðarheiðar og næsta nágrennis.
Kortlagði öll sjónræn áhrif mannvirkjanna á svæðinu
Fyrrnefnd stofnun WRi hefur unnið að þróun ítarlegrar kortlagningar á víðernum í samráði við skosk stjórnvöld, meðal annars í þjóðgörðum og óbyggðum víðernum, samkvæmt ÓFEIGU. Byggt sé á landupplýsingum í hárri upplausn til að meta landfræðilegt umfang áhrifa og sé meðal annars metið hvort áhrif eru mikil eða lítil með tilliti til fjarlægðar. „Sem dæmi má nefna að hús er ekki aðeins metið út frá staðsetningu, heldur hefur hæð þess áhrif á hversu langt sjónrænu áhrifin ná. Lágt hús eða hús sem stendur í dæld hefur þannig minni sjónræn skerðingaráhrif en hátt hús eða hús sem stendur á hæð.“
Til viðbótar við kortlagningu á víðernaskerðingu af völdum Hvalárvirkjunar kortlagði WRi öll sjónræn áhrif mannvirkjanna á svæðinu, það er hvaðan sést til þeirra. Þau áhrif eru mun umfangsmeiri en aðeins skerðing óbyggðra víðerna, samkvæmt niðurstöðunum.
Wildland Research Institute er sjálfstæð fræðastofnun með sérþekkingu á víðernum, stefnumótun, kortlagningu og landslagsmati. Aðferðafræði og forrit WRi hefur einkum verið þróuð í tengslum við kortlagningu í skoskum þjóðgörðum og annast WRi ráðgjöf til skosku ríkisstjórnarinnar á þessu sviði. Að auki er WRi meðhöfundur víðernakortlagningar Evrópusambandsins og aðstoðar Alþjóða náttúruverndarstofnunina (IUCN) við kortlagningu víðernagæða í Frakklandi. WRi hefur einnig unnið með þjóðgarðastofnun Bandaríkjanna og unnið að mati á víðernagæðum í Kína, samkvæmt ÓFEIGU.
Hægt að skilgreina óbyggð víðerni út frá raunverulegum aðstæðum
Í tilkynningu náttúruverndarsamtakanna kemur fram að í náttúruverndarlögum sé svohljóðandi skilgreining á óbyggðum víðernum: „Óbyggt víðerni: Svæði í óbyggðum sem er að jafnaði a.m.k. 25 km2 að stærð eða þannig að hægt sé að njóta þar einveru og náttúrunnar án truflunar af mannvirkjum eða umferð vélknúinna farartækja og í a.m.k. 5 km fjarlægð frá mannvirkjum og öðrum tæknilegum ummerkjum, svo sem raflínum, orkuverum, miðlunarlónum og uppbyggðum vegum.“
Tölulegu viðmiðin séu fyrst og fremst til leiðbeiningar og nálgun þeirra skili fremur grófum niðurstöðum. Með nákvæmum kortlagningaraðferðum á borð við þær sem WRi framkvæmir sé hægt að skilgreina óbyggð víðerni út frá raunverulegum aðstæðum á hverjum stað.
„Víðernagreiningar í Evrópu hafa sýnt að 1 prósent af „villtustu“ óbyggðum víðernum Evrópu ná yfir tæpa 57 þúsund ferkílómetra. Þar af eru 24 þúsund ferkílómetrar þessa eina prósents á Íslandi, eða 42% af „villtustu“ víðernum álfunnar. Með skilgreiningunni „villtustu“ er átt við víðerni sem eru hvað lengst frá öllum mannvirkjum eða aðgangsstöðum vélknúinna farartækja,“ segir í tilkynningunni.