„Svo verð ég að játa að ég sakna þess að utanríkisráðherra hafi ekki haft samband við stjórnvöld í Namibíu til að árétta okkar skuldbindingar í eftirfylgni með þróunarsamvinnuverkefnum okkar þar sem lauk 2010, en líka samband við Malaví, Úganda, Afganistan og Palestínu. Til að engum dyljist að Ísland vilji halda áfram að sinna af einurð faglegri og kraftmikilli þróunarsamvinnu sem hefur gott orð á sér og hefur haft gríðarleg áhrif á líf venjulegs fólks og möguleika þess til að byggja sér og sínum góða framtíð.“
Þetta segir Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, í stöðuuppfærslu á Facebook í dag.
Þingmaðurinn hitti Catherine Gotani Hara, fyrsta kvenforseta þingsins í Malaví, síðastliðinn fimmtudag en hún heimsótti Alþingi ásamt föruneyti, skoðaði Alþingishúsið og átti fund með Steingrími J. Sigfússyni, forseta Alþingis, og hitti síðan utanríkismálanefnd að máli.
Í færslu sinni á Facebook segir Rósa Björk að Hara hafi lýst á fundi þeirra styrkleikum og veikleikum samfélagsins í Malaví af mikilli þekkingu og yfirsýn og hvernig þróunarsamvinnuverkefni Íslands þar í landi hafi breytt lífi fólks til hins betra.
Mikilvægt að Íslendingar standi við skuldbindingar sínar
„Samstarfslönd Íslands í þróunarsamvinnu eru Malaví og Úganda og áherslulönd Íslands í þróunarsamvinnu eru Afganistan, Mósambík og Palestína. Síðan erum við í svokölluðu svæðasamstarfi í Austur-Afríku í fiskimálum og málefnum hafsins og í Vestur-Afríku að endurnýjanlegri orku með áherslu á jarðhita,“ skrifar Rósa Björk.
Hún segir það vera gríðarlega mikilvægt að Íslendingar standi við skuldbindingar sínar og auki hlutfall af þjóðarframleiðslu til þróunarsamvinnu og tryggi að þeir fjármunir renni í áhrifamikla þróunarsamvinnu en ekki í verkefni hér heima sem eigi að fá peninga annars staðar.
Það var frábært að hitta Gotani Hara, fyrsta kvenforseta þingsins í Malaví. Gotani lýsti á fundi okkar, styrkleikum og...
Posted by Rósa Björk Brynjólfsdóttir on Tuesday, November 26, 2019