Minnst fjórir forystumenn Samherja hafa ráðið lögmenn til að undirbúa varnir vegna ásakana á hendur fyrirtækinu um mútubrot og skattaundanskot.
Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Í viðtali við blaðið segir Garðar Gíslason, lögmaður Samherja, að félagið sé ekki að samsama sig þeim einstaklingum sem mögulega verði til rannsóknar vegna Samherjamálsins. „Það skal ítrekað að Samherji hefur heitið fullri samvinnu og samráði með yfirvöldum vegna þessara mála,“ segir Garðar.
Hann segir enn fremur að engir einstaklingar hafi fengið réttarstöðu grunaðs manns í málinu, og engar skýrslutökur hafi farið fram.
Fram hefur komið að embætti Héraðssaksóknara, skattrannsóknarstjóra og ríkisskattstjóra séu öll að rannsaka Samherja og ásakanir um mútugreiðslur, skattaundanskot og peningaþvætti, í tengslum við starfsemi félagsins í Namibíu, sem fjallað var um Kveiki, fréttaskýringiþætti RÚV, í Stundinni og á vef Wikleaks. Al Jazeera hefur síðan boðað frekari umfjöllun og verður þáttur sýndur 1. desember, þar sem fjallað verður um Afríkuveiðar Samherja, að því er fram kemur á Youtube.
Að því er fram kemur í Fréttablaðinu hefur Yfirlögfræðingur Samherja, Arna Bryndís Baldvins McClure, ráðið sér lögmanna og er það Halldór Brynjar Halldórsson sem er lögmaður hennar.
Arnar Þór Stefánsson, hjá LEX Lögmannsstofu, er lögmaður Egils Helga Árnasonar, sem kom að stjórnun ArcticNam, gegnum afríska lögmannsstofu.
„Jón Óttar Ólafsson, fyrrverandi
rannsóknarlögreglumaður, mun
hafa ráðið Svein Guðmundsson hjá
Juralis. Jón Óttar var ráðgjafi hjá
Samherja og er sagður hafa verið í
innsta hring Namibíuveiðanna.
Þá mun Garðar Víðir Gunnarsson, lögmaður hjá LEX lögmannsstofu, verja einstakling sem starfaði
á vegum Samherja erlendis um árabil,“ segir í Fréttablaðinu.