Þorsteinn Már Baldvinsson, einn aðaleigenda Samherja og fyrrverandi forstjóri fyrirtækisins, hefur sagt sig úr stjórnum alls 14 fyrirtækja í Bretlandi.
Frá þessu er greint á vef Fiskifrétta. Þar segir að um sé að ræða eftirfarandi fyrirtæki: Onward Fishing Company Limited, Boyd Line Limited, Lionman Limited, Uk Fisheries Limited, Marr Management Limited, J. Marr (Fishing) Limited, Kirkella Limited, Jacinta Limited, Armana Limited, Collins (Seafoods) Limited, Seagold Limited, Wraggs Seafoods Limited, Onward Investment Limited og Collins Seafoods Richmond Limited.
Þegar Fiskifréttir könnuðu stöðu mála hjá bresku fyrirtækjaskránni fyrir viku síðan var Þorsteinn Már enn stjórnandi í öllum fyrirtækjunum.
Ástæða þess að Þorsteinn Már stígur til hliðar er Samherjamálið, en fyrir tveimur vikum opinberuðu Kveikur og Stundin að Samherji hefði greitt ætlaðar mútur, stundað meint peningaþvætti og skattasniðgöngu í tengslum við veiðar samstæðunnar í Namibíu. Samherji er meðal annars sagður hafa greitt alls 1,4 milljarða króna í mútur hið minnsta fyrir aðgengi að ódýrum kvóta. Þiggjendurnir voru tveir ráðherrar í Namibíu, sem báðir hafa sagt af sér, og tveir aðrir einstaklingar tengdir þeim.
Greint var frá því fyrr í dag að breska verslunarkeðjan Sainsbury´s kaupir ekki lengur frosinn fisk af dótturfélagi Samherja í Bretlandi. Ákvörðun um að slíta því viðskiptasambandi var þó tekin áður en að Kveikur og Stundin opinberuðu meintar mútugreiðslur, peningaþvætti og skattasniðgöngu Samherja í tengslum við veiðar fyrirtækisins í Namibíu.
Frá þessu er greint á fréttasíðunni Undercurrent News sem sérhæfir sig í fréttum af sjávarútvegsmálum. Þar kemur enn fremur að Marks and Spencer (M&S), hinn stóra verslunarkeðjan sem hefur keypt fisk af starfsemi Ice Fresh Seafood, dótturfélags Samherja, í Grimsby, fylgist mjög vel með þróun mála í mútumálinu.
Rannsókn stendur yfir á málum tengdum Samherja í Namibíu, Noregi og á Íslandi.