Andrés Ingi Jónsson hefur sagt sig úr þingflokki Vinstri grænna og hyggst starfa sem óháður þingmaður út kjörtímabilið. Þetta kemur fram í frétt RÚV.
Við upphaf þingfundar í dag var tilkynnt að Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður VG, yrði erlendis á næstunni í opinberum erindagjörðum og tók varamaður sæti hennar á þingi. Þingforseti tilkynnti jafnframt að bréf hefði borist frá Andrési Inga þar sem greint var frá því að hann hefði sagt sig úr þingflokknum og að hann myndi starfa utan flokka út kjörtímabilið.
Andrés Ingi og Rósa Björk eru þeir tveir þingmenn sem hafa verið í þingflokki Vinstri grænna en ekki stutt stjórnarsáttmála VG, Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins.
Auglýsing
Fram kemur í frétt RÚV að eftir úrsögn Andrésar Inga úr þingflokknum hafi ríkisstjórnin fimm manna meirihluta, 34 þingmenn gegn 29 þingmönnum stjórnarandstöðu.