Fimmtán þingmenn þriggja flokka, Samfylkingar, Pírata og Flokks fólksins, lögðu fram breytingartillögu við frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2020 í gær. Þau leggja til hækkun á framlagi til lífeyris aldraðra og öryrkja svo standa megi undir kröfunni um að engin sé með minna en lágmarkslaun í tekjur.
Þriðja umræða um fjárlögin hófst á þinginu í gær og mun halda áfram í dag. Ekki liggur ljóst fyrir hvenær atkvæðagreiðsla muni fara fram um tillöguna.
Fyrsti flutningsmaður er Ágúst Ólafur Ágústsson og með honum eru Logi Einarsson, Halldóra Mogensen, Inga Sæland, Björn Leví Gunnarssyni, Guðjón S. Brjánsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Guðmundur Andri Thorsson, Helga Vala Helgadóttir, Helgi Hrafn Gunnarsson, Jón Þór Ólafsson, María Hjálmarsdóttir, Oddný G. Harðardóttir, Smári McCarthy og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.
Kostar um 38 milljarða að færa þessa hópa upp í lágmarkslaun
Samkvæmt tillögunni kostar það um 13 milljarða að færa alla öryrkja upp í lágmarkslaun og um 25 milljarða að gera það sama við alla aldraða, samtals um 38 milljarða króna.
Hrinda af stað undirskriftasöfnun
Nú stendur yfir undirskriftasöfnun þar sem þess er krafist að enginn sé með minna en lágmarkslaun. „Samkvæmt kjarasamningum hafa lágmarkslaun á Íslandi verið 317 þúsund krónur á mánuði frá 1. apríl síðastliðnum og þau hækka í 335 þúsund krónur 1. apríl á næsta ári,“ segir á vefsíðu söfnunarinnar.
Þá kemur fram að í dag séu lægstu eftirlaun frá Tryggingastofnun aðeins rúmlega 248 þúsund krónur á mánuði eða tæplega 69 þúsund krónum lægri en lágmarkslaun. Samkvæmt fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar hækki lægstu eftirlaun ekki um nema 3,5 prósent um áramótin og verði því rúmlega 78 þúsund krónum lægri en lágmarkslaun í landinu eftir 1. apríl næstkomandi.
Munurinn á lægsta örorkulífeyri og lágmarkslaunum sé eilítið minni. Rúmlega 66 þúsund krónur frá 1. apríl 2019 verði tæplega 76 þúsund krónur frá 1. apríl næstkomandi.
Verið að dæma varnarlausasta fólkið til grimmrar fátækar
„Öllum ætti að vera ljóst að með því að láta öryrkja og eftirlaunafólk hafa tekjur sem eru langt undir lágmarkslaunum er verið að dæma tug þúsundir af varnarlausasta fólki landsins til grimmrar fátækar,“ segir á vefsíðu undirskriftasöfnunarinnar.
Stjórn Eflingar styður við fyrrnefnda undirskriftasöfnun og telur að enginn eigi að þurfa að lifa af lægri innkomu en lágmarkslaunum og krefst stjórnin breytinga.
„Fólk nær varla að draga fram lífið á lægstu launum og enginn ætti að vera með lægri framfærslu en lágmarkslaun,“ segir á vefsíðu Eflingar.