„Fyrir nokkru er mér orðið ljóst að formaður Blaðamannafélagsins er ekki í neinum tengslum við raunveruleikann og því miður virðist sem samninganefnd félagsins sé það ekki heldur. Það er erfitt að bjarga mönnum frá sjálfum sér. Það er hins vegar verra þegar ekki er hægt að bjarga saklausu fólki frá heimsku þeirra.“
Þetta skrifar ritstjóri ViðskiptaMoggans, Stefán Einar Stefánsson, á Facebook í dag. Tilefnið eru kjaraviðræður samninganefnda Blaðamannafélags Íslands og Samtaka atvinnulífsins en fundi þeirra þeirra lauk án niðurstöðu í dag. Búist er við verkfallsaðferðum á morgun í framhaldinu.
Stefán Einar segir í færslu sinni að á mánudaginn hafi formaður Blaðamannafélagsins, Hjálmar Jónsson, haldið fund með blaðamönnum sem starfa á vettvangi Árvakurs, útgefanda Morgunblaðsins og mbl.is. Þar hafi Stefán Einar spurt hann út í yfirstandandi verkfallsaðgerðir og hvort hann hefði lagt mat á hversu mörg störf gætu tapast vegna þeirra. „Meðal spurninga var einnig hvort hann hefði látið framkvæma kostnaðarmat á þeim kröfum sem hann heldur fram gagnvart SA en vill ekki upplýsa okkur blaðamenn um hverjar séu.“
Ritstjórinn segir að svar Hjálmars Jónssonar við fyrstu spurningunni hafi einfaldlega verið það að hann gæti ekki haft áhyggjur af því hversu mörg störf myndu tapast.
Vísar þá Stefán Einar næst í uppsagnir starfsmanna á Árvakri í dag en segir hann að þau hjá fyrirtækinu hafi horft á eftir fimmtán öflugum og góðum samstarfsmönnum vera sagt upp vegna rekstrarerfiðleika fyrirtækisins. „Á morgun ætlar Hjálmar Jónsson að lama þetta sama fyrirtæki með 12 tíma löngu verkfalli. Annað svipað á að fylgja í næstu viku. Enn harðari aðgerðum hefur verið hótað í kjölfarið,“ skrifar hann.
Afgerandi meirihluti blaðamanna greiddi atkvæði með vinnustöðvun
Blaðamenn, ljósmyndarar og myndatökumenn á stærstu vefmiðlum landsins, Vísi, Mbl, Fréttablaðsins og RÚV, lögðu niður störf tvo föstudaga í röð í nóvember en verkfallsaðgerðum var frestað síðastliðinn föstudag. Til stendur að þær haldi áfram á morgun og mun þá starfsfólk miðlanna leggja niður störf í tólf klukkustundir.
Afgerandi meirihluti blaðamanna greiddi atkvæði með vinnustöðvunum í atkvæðagreiðslu BÍ sem fór fram í lok október. Blaðamenn hafa verið samningslausir frá því um áramót, en ekki hafa náðst samningar við stærstu fyrirtækin.
Kjarninn, Birtingur og Stundin hafa þegar samþykkt að ganga að kröfum Blaðamannafélagsins en það á ekki við um stærstu fyrirtækin, Sýn, Torg útgáfufélag Fréttablaðsins, og Árvakur, og RÚV.
Blaðamenn óánægðir með verkfallsbrot á Mbl
Blaðamenn og fréttastjórar á frétta- og íþróttadeild mbl.is sendu frá sér yfirlýsingu vegna meintra verkfallsbrota á miðlinum þann 8. nóvember síðastliðinn. Þeir lýstu yfir vonbrigðum með það framferði og þau viðhorf til löglega boðaðra aðgerða sem birtust á miðlinum. Starfsmennirnir ítrekuðu yfirlýsinguna þann 15. nóvember þegar fréttir birtust á miðlinum á meðan verkfallsaðgerðum stóð.
„Um leið og blaðamenn á mbl.is lögðu niður störf í morgun tóku nokkrir blaðamenn á Morgunblaðinu, sem að öllu jöfnu skrifa ekki fréttir á mbl.is, til við að skrifa fréttir á mbl.is. Að auki voru fyrrverandi sumarstarfsmaður og lausapenni á Morgunblaðinu kallaðir til til þess að skrifa fréttir á mbl.is á meðan þeir blaðamenn miðilsins, sem voru á vakt á þessum tiltekna tíma, lögðu niður störf í samræmi við löglega boðaðar aðgerðir sem stóðu til klukkan 14,“ sagði í yfirlýsingunni.
Fram kom hjá blaðamönnunum og fréttastjórunum að þessi umræddu fréttaskrif hefðu verið með vitund og vilja ritstjóra og framkvæmdastjóra Morgunblaðsins.
„Við undirrituð blaðamenn og fréttastjórar á frétta- og íþróttadeild mbl.is lýsum yfir vonbrigðum með þetta framferði og þau viðhorf til löglega boðaðra aðgerða sem þarna birtast. Við teljum að þetta framferði sé til þess fallið að varpa rýrð á mbl.is, ekki síst þá blaðamenn sem þar starfa og leitast eftir fremsta megni við að sinna starfi sínu af heilindum og fagmennsku. Að okkar mati er þetta síst til þess fallið að finna vænlega lausn á kjaradeilunni sem nú stendur yfir.
Með því að senda þessa yfirlýsingu viljum við að það komi skýrt fram að þær fréttir og umfjallanir, sem skrifaðar voru og birtar á mbl.is á meðan á löglega boðuðum aðgerðum félaga í Blaðamannafélagi Íslans stóð, eru ekki á okkar ábyrgð,“ sagði að lokum í yfirlýsingunni en undir hana skrifuðu 17 blaðamenn og fréttastjórar.